Byggðarráð telur þessa stöðu alvarlega,“ segir í bókun byggðarráðs Borgarbyggðar vegna skýrslu sem leiðir í ljós mikla misbresti í bókhaldi vegna framkvæmda við Grunnskólann í Borgarnesi.
Ákveðið var að fara ofan í saumana á málinu er í ljós kom misræmi á milli verkbókhalds eftirlitsaðila með grunnskólaframkvæmdinni og bókhalds Borgarbyggðar.
„Eftirlitsaðilinn telur ljóst að ekki hafi verið fylgt þeirri ákvörðun að bóka ekki kostnað á verkefnið nema að samþykki eftirlits lægi fyrir.
Af þeim sökum séu þær upplýsingar sem hafa reglulega verið kynntar fyrir byggingarnefnd og byggðarráði rangar og gefi ekki rétta mynd af stöðunni.
Í mjög grófum dráttum virðist samkvæmt minnisblaðinu að 105.040.410 krónur hafi verið skráðar á verkefnið án samþykkis eða vitneskju eftirlitsaðila,“ segir í bókun.
„Eins kemur fram í minnisblaðinu að mögulega hafi einhverjir reikningar verið samþykktir sem hafi ekki átt rétt á sér og því mögulega um ofgreiðslu að ræða á einhverjum þáttum,“ segir byggðarráð, sem kveður stöðuna alvarlega og leggur til hlutlausa úttekt á verkefninu í heild.
„Þá er nauðsynlegt að fara yfir alla reikninga sem hafa verið bókaðir inn á verkið og greina þá sem sannarlega tilheyra ekki verkinu og sjá til þess að þeir verði endurflokkaðir í eignaskrám sveitarfélagsins.“
Heimild: Frettabladid.is