Fjórir aðilar skiluðu inn umsókn til Vegagerðarinnar um þátttöku í innkaupaferli vegna nýrrar brúar yfir Hornafjarðarfljót en frestur rann út í gær.
Þetta er fyrsta útboðið frá því sérstök lög voru samþykkt í fyrra sem heimila ríkinu að semja við einkaaðila um fjármögnun samgönguframkvæmda.
Samkvæmt lýsingu á vef Vegagerðarinnar felst verkið í breytingu á legu hringvegarins um Hornafjörð og styttingu hans um tólf kílómetra.
Verktaki skal, auk þess að byggja mannvirkin, fjármagna verkið að hluta til lengri tíma og er miðað við 20 til 30 ár. Verktími framkvæmdarinnar er áætlaður allt að þremur árum.
Þeir sem sóttu um þátttöku í forvalinu eru: Ístak hf., Mosfellsbæ; Þróun og ráðgjöf ehf., ÍAV hf. og Arctica finance hf. fyrir hönd óstofnaðs félags; ÞG verk, Reykjavík; og Borgarverk ehf., Borgarnesi.
Vegagerðin stefnir að því að samningum verði lokið fyrir áramót.
Heimild: Visir.is