Home Fréttir Í fréttum Kafli milli Hveragerðis og Selfoss tekinn í notkun í haust – myndband

Kafli milli Hveragerðis og Selfoss tekinn í notkun í haust – myndband

195
0
Framkvæmdirnar hafa ekki haft mikil áhrif á umferðina. Tafir eru litlar og umferðin flæðir nokkuð vel.

Framkvæmdir við 2. áfanga breikkunar Hringvegar (1) milli Hveragerði og Selfoss ganga vel og eru á áætlun. Brúarsmíði er í fullum gangi en fimm steyptar brýr og undirgöng ásamt tveimur reiðgöngum úr stáli eru hluti verksins.

<>

Vinnu við lagnir veitufyrirtækja er að ljúka og er næsta skref að byggja upp Ölfusveg svo beina megi umferð um hann á meðan Hringvegur er byggður upp og breikkaður.

Gert er ráð fyrir að austasti hluti hans ásamt hringtorgi við Biskupstungnabraut verði tekinn í notkun haustið 2021 en endanleg verklok samkvæmt útboði eru í september 2023.

Í meðfylgjandi myndbandi má sjá umfjöllun og lýsingu á framkvæmdinni:

 

Verkið heitir Hringvegur (1) Biskupstungnabraut – Gljúfurholtsá. Útboðskaflinn liggur um land sveitarfélaganna Árborgar og Ölfuss og skiptist í Hringveg (um 7,2 km), Ölfusveg (um 6,6 km), Þórustaðaveg (um 0,4 km) og Biskupstungnabraut (um 0,7 km).

Tvö stærri vegamót eru í framkvæmdinni, hringtorg við Biskupstungnabraut og nýjan Hringveg og svo hliðfærð T-vegamót á Hringvegi við Hvammsveg eystri og Kirkjuferjuveg.

Til framkvæmdanna teljast einnig bygging þriggja brúarmannvirkja, tveggja undirganga og tveggja reiðganga auk breytinga á lagnakerfum veitufyrirtækja. Hringvegur verður byggður upp sem 2+2 vegur en gengið verður frá yfirborði hans sem 2+1 vegar.

ÍAV – Íslenskir aðalverktakar áttu lægsta tilboð í verkið, 5.069 m.kr. og var skrifað undir samning í apríl 2020 en framkvæmdir hófust strax að því loknu. Ágúst Jakob Ólafsson verkstjóri ÍAV segir verkið ganga mjög vel.

„Fyrsti fasi verkefnisins fór í að setja farg á austasta hluta af Hringveginum sjálfum frá Ingólfsfjalli austur að Selfossi og hliðarveg, svokallaðan Ölfusveg á sama svæði, framhjá Kögunarhóli og austur með Ingólfsfjalli,“ lýsir Ágúst en laus jarðlög eru á svæðinu, sérstaklega mýrarjarðvegur sem er allt að 8 m þykkur.

Fergja þarf slík svæði í ákveðinn tíma áður en hægt er að hefja eiginlega vegagerð. „Við settum um 440 þúsund rúmmetra farg á þessi tvö svæði í fyrrasumar og erum byrjaðir að aflétta því í dag og byrjaðir að byggja vegina í sinni endanlegu mynd.“

Af þremur brúm er búið að steypa upp brú á Gljúfurholtsá um Ölfusveg og verið að byggja aðra brú á Gljúfurholtsá á Hringvegi. „Við erum einnig að byggja undirgöng um Kotströnd þar sem Ölfusvegur fer undir Hringveginn og búið er að gera ein reiðgöng undir Hringveginn nær Selfossi.“

Verkið er afar viðamikið enda með stærri verkefnum sem Vegagerðin hefur boðið út. Eitt af flækjustigunum er að samþætta breytingar á lagnakerfum veitufyrirtækja en ÍAV sér um jarðvinnu og nýlagnir fyrir Veitur, Mílu, Gagnaveitu Reykjavíkur, Ölfus, Árborg, Árbæjarhverfi og Rarik. Ágúst segir þessa vinnu hafa gengið vel og henni sé nánast lokið.

„Næstu verkefni er að byggja upp Ölfusveg til að færa umferð á hann af Hringvegi svo hægt sé að byggja upp Hringveginn. Síðan á að byggja upp austasta hluta Hringvegarins, næst Selfossi. Það eru hingtorg við Biskupstungnabraut og austasta hluta af Hringvegi,“ lýsir Ágúst en þennan hluta af Hringvegi á að taka í notkun í haust.

Óska eftir meiri tillitsemi ökumanna

Í dag starfa 44 við framkvæmdina, bæði starfsmenn ÍAV og undirverktakar sem eru um 12 talsins.

Stórvirkar vinnuvélar spila stóran þátt en að sögn Ágústs eru í verkinu 5 beltagröfur, 3 jarðýtur, 2 valtarar, 3 búkollur, 5 fjögurra öxla bílar og 4 trailerar, byggingakranar og ýmislegt fleira.

Starfsmenn vinna í mikilli nálægð við þunga umferð en samkvæmt umferðartölum frá 2018 var umferðin milli Hveragerðis og Selfoss um 12.700 bílar á sólarhring yfir sumartímann.

„Framkvæmdirnar hafa ekki haft mikil áhrif á umferðina. Tafir eru litlar og umferðin flæðir nokkuð vel. Við erum hins vegar í smá basli með umferðarhraðann, menn sýna okkur litla tillitsemi,“ segir Ágúst og bendir á að reynt sé að taka hraðann ekki of mikið niður til að halda umferðarflæði. „Það myndi muna miklu ef fólk færi eftir þessum vægu hraðatakmörkunum svo ekki þurfi að taka hraðann meira niður.“

Vinnusvæðamerkingar er mikilvægur hluti af framkvæmdinni. „Það liggur mikil vinna í að viðhalda merkingum, ætli það sé ekki heilt stöðugildi sem fer í það,“ segir Ágúst og bendir á að þar sem hraðinn sé tekinn niður í 50 km/klst. sé það aðeins gert á vinnutíma. Þær merkingar séu teknar niður á kvöldin og um helgar og hækkar þá hraðinn í 70.

Að öðru leiti hafa framkvæmdir gengið vel að sögn Ágústs. „Við höfum verið heppnir með covid, höfum ekki fengið neitt smit enda haldið okkur í hálfgerðri bólu. Við erum vel á áætlun, aðeins á undan ef eitthvað er, en verklok eru ekki fyrr en í september 2023 svo ýmislegt getur gerst.“

Segja má að orðatiltækið „fall er fararheill“ eigi ágætlega við um framkvæmdina þar sem eldhússkáli í vinnubúðum ÍAV brann til kaldra kola áður en hann var tekinn í notkun. „Það hafði þó engin áhrif á verkið sjálft og við héldum bara áfram að njóta góðrar þjónustu á Hjarðarbóli þar sem við erum í fæði. Þar erum við ekki á kot settir,“ segir Ágúst og er bjartsýnn á framhaldið.

Nánar um verkið

Slitlag á Hringvegi, Biskupstungnabraut og hringtorgi verður tvöfalt malbik, samtals 110 mm þykkt. Á Ölfusvegi og Þórustaðavegi verður tvöföld klæðing með flokkaðri möl úr möluðu bergi, samtals 30 mm þykk

Inn í verkinu eru eftirfarandi vegaframkvæmdir:

  • Breikkun Hringvegar í 2+1
  • Hringtorg við Biskupstungnabraut
  • Ný vegamót og tengingar við Kirkjuferjuveg og Hvammsveg eystri
  • Að- og fráreinar við Þórustaðaveg
  • Ölfusvegur með hjólareinum
  • Þórustaðavegur
  • Biskupstungnabraut
  • Heimreiðar að Mæri, Hvoli og Þórustöðum
  • Eftirlitsstaðir við Hringveg
  • Áningarstaður við Ölfusveg

Vegir

  • Hringvegur verður 22 m að heildarbreidd.
  • Ölfusvegur verður með hjólareinum og engum öxlum, heildarbreidd 9 m.
  • Þórustaðavegur verður 7 m breiður.
  • Biskupstungnabraut verður 10 m breið.
  • Hringvegur (Biskupstungnabraut) frá hringtorgi að Selfossi verður 9,5 m breiður.

Brúarmannvirki, undirgöng og reiðgöng

  • Brú yfir Gljúfurholtsá á Hringvegi. Núverandi brú var byggð árið 1967. Hana á að rífa og farga og byggja nýja lengri og breiðari brú á sama stað. Ný brú verður úr steinsteypu með eitt 12 m langt haf milli hliðarveggja. Brúarplatan er eftirspennt. Breidd brúarinnar er 23 m.
  • Brú yfir Gljúfurholtsá á Ölfusvegi, Byggja á nýja brú yfir Gljúfurholtsá vegna nýs Ölfusvegar. 10 m löng of 20,5 m breið.
  • Brú við Kotströnd á Hringvegi. Undirgöng fyrir akandi og hjólandi þar sem Ölfusvegur fer undir nýjan Hringveg. Brúin er mótuð þannig að rýmið undir henni virki rúmt og bjart. Veggjunum er hallað svo rýmið er víðara upp undir lofti en við jörð. Stoðveggir ganga út frá brúnni og mæta jarðvegsfláum frá vegöxlum svo mannvirkið fellur að landinu með látlausum hætti.
  • Brú yfir Bakkárholtsá á Hringvegi. Byggja á nýja brú yfir Bakkárholtsá vegna Hringvegar í nýju vegstæði. Auk þess að brúa ána eiga að liggja undir brúna vegslóðar sitt hvoru megin við ána.
  • Reiðgöng við Kögunarhól undir Hringveg (stálgöng). Stálplöturæsið er um 37,7 m langt neðst og eru fláar á því beggja megin. Rjúfa þarf núverandi Hringveg og grafa fyrir göngunum. Göngin ná stutt út úr vegfyllingunni beggja vegna.
  • Undirgöng fyrir bílaumferð við Þórustaðaveg undir Hringveg. Göngin verða úr slakbentri steinsteypu og eru 6,5 m milli hliðarveggja. Lengd ganganna er 26,5 m.
  • Reiðgöng við Árbæ undir Hringveg (stálgöng).

Einnig er um að ræða breytingar á lagnakerfum veitufyrirtækja. Um er að ræða lagnir Veitna, Mílu, Gagnaveitu Reykjavíkur, Ölfus, Árborgar, Árbæjarhverfis og Rarik.

Verkinu á að ljúka í lok september 2023.

 

Heimild: Vegagerðin.is