Horfur eru á að Grænlendingar verði að sætta sig við að fá bara tvo nýja alþjóðflugvelli að sinni en ekki þrjá, eins og að var stefnt. Vegna fjárskorts hafa grænlensk stjórnvöld neyðst til að fresta gerð nýs aðalflugvallar fyrir Suður-Grænland.
Flugvallauppbyggingin er langstærsta innviðafjárfesting í sögu Grænlendinga og eru framkvæmdir komnar af stað bæði í Nuuk og Ilulissat, en fjallað var um málið í fréttum Stöðvar 2.
Áformin í Qaqortoq eru hins vegar í frosti en nýjum flugvelli þar er ætlað að taka við hlutverki Narsarsuaq sem aðalflugvöllur Suður-Grænlands. Þar er búið að hanna völl með fimmtán hundruð metra langri flugbraut og glæsilegri flugstöð, sem þjóna á bæði innanlands- og millilandaflugi.
Það kom hins vegar babb í bátinn þegar tilboðin voru opnuð í fyrra. Þau lægstu reyndust nærri tvöfalt hærri en sá fjárhagsrammi sem grænlenska landsstjórnin hafði markað fyrir verkið. Ramminn var um það bil ellefu milljarðar íslenska króna, en ekkert boð barst undir tuttugu milljörðum króna. Í hópi bjóðenda sem valdir höfðu verið í forvali var Ístak.
Eftir nokkra umhugsun ákvað grænlenska stjórnin að endurtaka útboðið í von um að fá lægri tilboð en án þess þó að minnka umfang verksins. Nýja útboðið breytti hins vegar engu, að því er Sermitsiaq skýrði frá. Tilboðin lækkuðu ekkert, sem kom reyndar fáum á óvart, enda var verið að bjóða út nákvæmlega sama verkið.
Á sama tíma hafa borist fréttir af háum bakreikningum verktaka vegna hinna flugvallanna og að kostnaður þar stefni í að fara langt fram úr áætlunum. Í frétt KNR er lýst áhyggjum um að tvísýnt sé um að nýr flugvöllur á Suður-Grænlandi verði að veruleika á næstu árum en til stóð að hann yrði tekinn í notkun á árinu 2023.
Heimild: Visir.is