Fagfjárfestasjóðurinn 105 Miðborg slhf., sem sér um uppbyggingu á Kirkjusandsreitnum í Reykjavík, hefur lagt fram kyrrsetningarbeiðni á allar eignir verktakafyrirtækisins ÍAV.
Eins og fram kom í ViðskiptaMogganum í gær hafði ÍAV áður óskað eftir kyrrsetningu á eignum 105 Miðborgar slhf., sem er í stýringu hjá Íslandssjóðum, dótturfélagi Íslandsbanka, vegna uppbyggingar félagsins á Kirkjusandi.
Í málinu er deilt um frágang á annað hundrað íbúða á Kirkjusandi, en ÍAV sá um uppbygginguna þar til 105 Miðborg rifti samningum við fyrirtækið í febrúar sl.
Sorglegt útspil
Jónas Þór Jónasson, framkvæmdastjóri 105 Miðborgar, segir í samtali við Morgunblaðið að kyrrsetningarbeiðni ÍAV sé sorglegt útspil í málinu og fráleit krafa.
„Kyrrsetning er íþyngjandi úrræði sem óskað er eftir þegar kröfur eru réttmætar og hætta er á að fjármagni verði komið undan.
Staðreyndin er hins vegar sú að 105 Miðborg er vel fjármagnaður sjóður með eignir umfram skuldir upp á fjóra milljarða króna,“ segir Jónas.
Hann bendir að auki á að sjóðurinn starfi samkvæmt skýrum lögum og reglum og lúti opinberu eftirliti.
Þá er sjóðurinn í eigu sterkra fagfjárfesta, banka og lífeyrissjóða. „Þetta er lokaður sjóður sem aldrei hefur verið greitt út úr, nema til framkvæmdaaðila. Þeir hafa fengið alla sína reikninga greidda.“
Heimild: Mbl.is