Niðurstaða könnunar sem gerð var á meðal Kópavogsbúa um miðbæ Kópavogs, eða Hamraborgarsvæðið, sýnir að yfir 90% telja þörf á endurbótum á Hamraborgarsvæðinu, þar af 73% mikla þörf.
Ríflega 70% líst vel eða í meðallagi á tillögur um breytingar á skipulagi svæðisins sem nýverið voru lagðar fram til kynningar. 27% aðspurðra líst illa á breytingarnar.
Mikill munur er á viðhorfi til skipulagstilagnanna eftir aldri þátttakenda, yngsti aldurshópurinn er jákvæðastur en sá elsti neikvæðastur. Í hópi þeirra sem eru yngri en 30 ára eru 60% jákvæðir, 33% líst í meðallagi á og 7% eru neikvæðir. Af þeim sem eru eldri en sextugt líst 28% vel á, 33% í meðallagi og 39% illa á.
Tæp 47% telja að Hamraborgarsvæðið verði vinsælt til búsetu að loknum breytingum en rúm 40% að vinsældirnar verði í meðallagi. 13% telja að svæðið verði óvinsælt til búsetu að breytingum loknum.
Könnunin er gerð að tillögu skipulagsráðs Kópavogs en fyrirtækið Maskína sá um gerð spurninga og framkvæmd könnunarinnar sem unnin var í febrúar og mars. Um 1.500 manns tóku þátt í spurningakönnuninni, um 500 úr hverju póstnúmeri í Kópavogi en úrtakið var 3.000 manns, valdir af handahófi úr Þjóðskrá
Tæp 16% svarenda höfðu kynnt sér tillögur um skipulagsbreytingarnar vel, 33% í meðallagi en meirihluti, eða 52%, hafði lítið sem ekkert kynnt sér fyrirhugaðar skipulagsbreytingar.
Spurt var hvað fólk teldi skipta miklu máli í nýjum miðbæ Kópavogs og nefndu flestir, eða tæp 90% kaffihús og 84% nefndu veitingastaði. Minni verslanir, útisvæði og gróður voru einnig nefnd af um 75% aðspurðra.
Þá var kannað var viðhorf til nokkurra þátta sem hafa verið mikið í umræðunni og kom í ljós að rúmum 60% líst í meðallagi eða vel á þéttleika byggðarinnar í nýjum tillögum og um 56% líst í meðallagi eða vel á hæð bygginganna.
Það sem helst veldur þátttakendum áhyggjum eru skuggavarp bygginga annars vegar og sviptivindar hins vegar, en yfir 60% telja að hvoru tveggja muni valda fremur eða miklu vandamáli.
Auk hefðbundinnar spurningakönnunar var einnig boðið upp á svonefnt vefumræðuborð og þar komu þátttakendurúr Reykjavík og Kópavogi. Vefumræðuborðið var opið í þrjá daga og tóku 39 manns þátt í því, meirihluti úr Kópavogi.
Meðal þess sem kom í ljós að flestir voru jákvæðir gagnvart nýju skipulagi, þegar þeir höfðu kynnt sér það. Svarendur töldu nýtt skipulag helst höfða til ungs fólks, námsmanna, eldri borgara og þeirra sem kjósa bíllausan lífsstíl.
Þá töldu flestir græn svæði og fjölbreytta þjónustu mikilvæga í breyttum miðbæ Kópavogs.
Könnunin verður höfð til hliðsjónar við nánari útfærslu á skipulagsbreytingum í Hamraborg.
Heimild: Kópavogur.is