Hengifoss er með hæstu fossum landsins og einn vinsælasti ferðamannastaður Austurlands. Jafnvel að vetri og í miðjum heimsfaraldri hittum við þar á erlenda ferðamenn en aðstaðan er heldur bágborin.
Í bleytu verður göngustígurinn að drullusvaði, göngufólk er í mestu vandræðum og leitar út fyrir stíga. Hér sést hvað gerist þegar stigið er í kantinn á göngustígnum. Það er eins og tappi sé tekinn úr og efnið í stígnum byrjar að flæða niður.
Stígar beggja vegna ár stækka svæðið
Um tíu milljónum króna hefur nú verið úthlutað í lagfæringar á stígnum og í að gera nýjan göngustíg hinum megin við ána í landi Hjarðarbóls. Byggðar verða tvær göngubrýr til að dreifa ferðafólki betur um svæðið.
„Þetta mun breyta upplifun af öllu svæðinu þannig að í stað þess að menn gangi bara upp og niður þá geta menn valið úr fleiri leiðum til að skoða Hengifoss, gilið og síðan fossaröðina sem er í gilinu sjálfu sem eru mjög fallegir fossar.
Þetta mun breyta mjög miklu. Þetta stækkar útivistarsvæðið um allan helming,“ segir Helgi Gíslason, sveitarstjóri í Fljótsdal.
Framkvæmdasjóður ferðamannastaða hefur líka úthlutað 55 milljónum í nýtt þjónustuhús við fossinn og Fljótsdalshreppur setur 60 milljónir í húsið næstu tvö árin.
„Það verður þá einhver myndarbragur á því að taka á móti ferðamönnum hér niðri. Bæði varðandi hópa. Það er hægt að taka á móti hópum og svo verður góð hreinlætisaðstaða og snyrtingar.
[Landvörður] á að geta tekið hópa inn í hús og kynnt mönnum ítarlega svæðið og farið síðan með þá upp og haft aðsetur í húsinu,“ segir Helgi.
Oft er meira vatn í Hengifossi en nú í mars. Fossinn er ekki bara tignarlegur heldur er gilið merkilegt því þar má sjá inn í fjallið og óteljandi jarðlög. „Þetta er eins og við vitum: Framtíðar útivistarsvæði og náttúruperla.
Þetta er óhemju glæsilegt svæði. Eitt það glæsilegasta á landinu til að taka á móti gestum og gangandi,“ segir Helgi Gíslason, sveitarstjóri í Fljótsdal.
Heimild: Ruv.is