Home Fréttir Í fréttum Setja 6.800 fermetra byggingarrétt á sölu

Setja 6.800 fermetra byggingarrétt á sölu

314
0
Lóðin í Vogabyggð sem Kaldalón hefur auglýst til sölu. Aðsend mynd

Kaldalón auglýsir til sölu byggingarrétt að tveggja til fimm hæða fjölbýlishúsi í Vogabyggð.

<>

Fasteignaþróunarfélagið Kaldalón hefur auglýst til sölu byggingarrétt félagsins að Stefnisvogi 12 í nýju íbúðahverfi í Vogabyggð í Reykjavík.

Greint var frá því í uppgjöri félagsins á föstudag að stjórn félagsins hefði ákveðið að auglýsa hluta lóða félagsins  á svæðinu til sölu til að flýta fyrir uppbyggingu hverfisins.

Alls eru rúmlega 320 íbúðir í Vogabyggð í þróun og uppbyggingu á vegum Kaldalóns. Við Stefnisvogi 2 er jarðvinnu lokið og framkvæmdir að hefjast að byggingu 71 íbúðar.

Í auglýsingu í Morgunblaðinu í dag segir að heildarbyggingarmagn í Stefnisvogi 12 ofanjarðar sé allt að 6.840 fermetrar.

Um er að ræða byggingarrétt að fjölbýlishúsi fyrir 68 íbúðir á tveimur til fimm hæðum með bílageymslum í kjallara. Þá segir enn fremur að lóðin sé þegar byggingarhæf. Lóðin er nyrst á Vogabyggðarsvæðinu, liggur að ósi Elliðaánna og snýr inngarður til suðurs.

Kaldalón seldi í byrjun ársins lóðir undir allt að 200 íbúðir í landi Smárahvamms (Hnoðraholti) í Garðabæ til félagsins Reirs Verk ehf. Sölunni var ætlað að bæta fjármagnsskipan félagsins og gera félaginu kleift að hraða uppbyggingu á lóðum sem tilbúnar eru til framkvæmda.

Kaldalón birti uppgjör á föstudag sem fram kom að félagið hefði hagnast um 371 milljón á síðasta ári. Strengur Holding, meirihlutaeigandi Skeljungs, er stærsti hluthafi Kaldalóns.

Heimild: Vb.is