Home Fréttir Í fréttum Mannvirki landsins eru hönnuð fyrir svona skjálfta

Mannvirki landsins eru hönnuð fyrir svona skjálfta

72
0
Mynd: rúv
Hátt í 20 skjálftar yfir þremur að stærð, hafa orðið á Suðurnesjum síðan á miðnætti 1. mars og til hádegis. Sá stærsti var 4,9, um klukkan hálf tvö í nótt. Þetta er meiri virkni heldur en á sama tíma í gær.
Landspítalinn hefur ekki frestað neinum aðgerðum vegna skjálftanna og verður það líklega ekki gert. Víðir Reynisson segir alla innviði hannaða með svona virkni í huga og mannvirki líka.

Tíu þúsund skjálftar og margir í morgun

Yfir tíu þúsund skjálftar hafa mælst á svæðinu við Keili og Fagradalsfjall síðan á miðvikudag og nokkuð margir öflugir nú í morgun sem hafa fundist greinilega.

<>

Stærsti skjálftinn í hrinunni var að morgni miðvikudagsins, 5,7 að stærð, og svo fylgdi annar, fimm að stærð, strax á eftir.

Í nótt, um klukkan hálf tvö, vakti snarpur 4,9 skjálfti eflaust marga íbúa suðvesturhornsins. Náttúruhamfaratryggingum hafa borist 15 tjónatilkynningar vegna skjálftanna síðustu daga, en ekkert meiriháttar.

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn segir alla innviði eiga að vera hannaða fyrir skjálfta af þessari stærð.

„Þetta er ekkert sem á að koma fólki á óvart að það geti komið svona skjálftar á þessu svæði. Allar hönnunarforsendur mannvirkja eru byggðar fyrir þetta. Þannig að við eigum ekki von á því að byggingar hrynji eða annað slíkt.”

Hrinan heldur áfram eða stóri kemur

Víðir undirstrikar að enn sé unnið samkvæmt tveimur mögulegum sviðsmyndum. Annars vegar að skjálftahrinan haldi áfram með svipuðum skjálftum og síðustu daga, jafnvel örlítið stærri.

„Sem gætu valdið því að minni hlutir falla úr hillum og fólk getur slasað sig á því. Og síðan að það verði stærri skjálfti austar, sem hefur þá meiri áhrif á stærra svæði og þyngri hlutir gætu þá færst úr stað og fallið. Þannig að nú er stóra málið að fara yfir heimili sitt og vinnustaðinn og tryggja að allt sé öruggt.”

Engu frestað á Landspítala

Þó að skjálftarnir hristi líklega upp í flestum, þá virðast þeir ekki hafa nein eiginleg áhrif á starfsemi eða daglegt líf fólks.

Til að mynda hefur engum skurðaðgerðum verið frestað á Landspítalanum, samkvæmt upplýsingum þaðan, og stendur ekki til að gera það. Hættustig Almannavarna hefur verið í gildi síðan á miðvikudag og nær það til Suðurnesja, höfuðborgarsvæðisins og Árnessýslu.

Fólk er beðið um að vera ekki á ferðinni við brattar hlíðar á Suðurnesjum vegna hættu á grjóthruni og þá er sérstaklega mælst til þess að göngufólk bíði með ferðir á Keili, þar sem flestir skjálftarnir eiga upptök sín einmitt þar.

Sprungur hafa myndast í vegum á Suðurnesjunum, en það er ekkert sem bendir til þess að þar undir séu stórar sprungur heldur virðist steypan einfaldlega hafa brotnað í átökunum.

Heimild: Ruv.is