Home Fréttir Í fréttum Stór fyrirtæki verða flutt af Ártúnshöfða

Stór fyrirtæki verða flutt af Ártúnshöfða

295
0
Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RÚV
Flytja þarf stór fyrirtæki á borð við Malbikunarstöðina, Steypustöðina og BM Vallá burt frá Ártúnshöfða, svo hægt sé að byggja þar íbúðir.
Forstjóri BM Vallár segist hafa skilning á stöðunni. Borgarstjóri segir að fermetrum atvinnuhúsnæðis á svæðinu fækki nánast ekkert.

Allt að 20.000 manns munu flytja upp á Ártúnshöfða á næstu árum, gangi áætlanir Reykjavíkurborgar eftir. Til þess að rýma fyrir íbúðabyggðinni þurfa stór iðnfyrirtæki að flytja af svæðinu.

<>

„Uppi á Ártúnshöfða eigum við gríðarlegt tækifæri til þess að þróa íbúðabyggð,“ segir Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri. „En þetta verður blönduð byggð. Þannig að fermetrum atvinnuhúsnæðis fækkar nánast ekkert.

Það endurspeglar bæði hvað landið er í rauninni lítið nýtt þar núna, en líka það að þegar við erum að búa til svona ný hverfi, þá viljum við að byggðin sé blönduð þannig að þetta sé sambland af íbúðahverfum og atvinnulífi, fyrirtækjum af öllum stærðum og gerðum.

Það er hins vegar ákveðin tegund af fyrirtækjum sem við sjáum fyrir okkur að þurfi að flytja. Til dæmis Malbikunarstöðin og Steypustöðvarnar sem þarna eru, og eitthvað af starfseminni sem er á Höfðanum. Og við þurfum að vera svolítið hreinskilin með það og eigum í viðræðum við lykilfyrirtæki á svæðinu um þessi mál,“ segir Dagur.

Esjumelar og Hólmsheiði

Stærstu fyrirtækin sem þurfa að flytja af svæðinu eru Malbikunarstöðin, Steypustöðin og BM Vallá. Þorsteinn Víglundsson, forstjóri Hornsteins, móðurfélags BM Vallár, segir í samtali við fréttastofu að fyrirtækið hafi skilning á því að rýma þurfi þetta svæði fyrir íbúðabyggð.

Nú sé til skoðunar hvert best sé að flytja fyrirtækið. Þorsteinn segir að fyrirtækið leggi mikla áherslu á að góðar samgöngur fyrir þungaflutninga til og frá þeim nýja stað verði tryggðar.

Dagur segir að ekki standi til að rýma önnur stór iðnaðarsvæði í borginni á næstunni.

„Við vorum að gera viðauka við aðalskipulagið núna og þetta er stóra breytingin. Við erum síðan að þróa ný atvinnusvæði líka uppi á Esjumelum og uppi á Hólmsheiði. Og hvetjum auðvitað alls staðar til þess að land sé nýtt betur og af þeirri útsjónarsemi sem við erum að gera varðandi íbúðarsvæðin.“

Kolefnisfótspor og verð á matvöru

Dagur segir að því standi ekki til að rýma stór iðnaðarsvæði á borð við Sundahöfn, og byggja þar íbúðir.

„Nei, Sundahöfn verður á sínum stað í fyrirsjáanlegri framtíð,“ segir hann. „Sú þróun sem við höfum verið að sjá er að fyrirtæki sem eru í miklum innflutningi hafa verið að færa sig inn á Sundahafnarsvæðið með tölvustýrt lagerhald sem tryggir bæði að ferskar vörur eru að komast ótrúlega hratt út á markaðinn með litlum bílum og jafnvel rafmagnsbílum sem áður var keyrt í gámum í útjaðar höfuðborgarsvæðisins, og síðan aftur með öðrum bílum inn á helstu þjónustusvæðin sem oft eru tengd miðborginni, eins og með ferskvöru.

Þannig að Sundahöfn er að breytast, hún er að tæknivæðast, hún er að þéttast svolítið. En ég held að fólk eigi að fara varlega í að vanmeta hvað stuttar flutningaleiðir helstu nauðsynja og helstu hráefna fyrir annað atvinnulíf frá góðum stað eins og Sundahöfn er, til atvinnufyrirtækjanna, til heimilanna og til verslananna, skiptir miklu máli fyrir verð á matvöru, verð á alls konar aðföngum og fyrir kolefnisfótspor þess sem við erum að gera,“ segir Dagur.

Heimild: Ruv.is