Landsnets stefnir á að sækja um framkvæmdaleyfi fyrir að leggja hluta Vopnafjarðarlínu 1 í jörð í vikunni. Stefnt er á að strengurinn verði tilbúinn í haust. Keyrt var á varaafli þar í á fjórða sólarhring í síðustu viku vegna bilunar á línunni.
Undirbúningur fyrir framkvæmdirnar hefur staðið í nokkurn tíma, enda sýna atburðirnir í síðustu viku að ekki er vanþörf á.
Steinunn Þorsteinsdóttir, upplýsingafulltrúi Landsnets, segir aðstæður á núverandi línuleið erfiðar, bæði sé þar snjóþungt og jafnvel snjóflóðahætta sem ógnað geti öryggi línumanna auk þess sem ísingarhætta sé þar sem valdi álagi á línuna.
Gert var áhættumat á línunni og var niðurstaða þess að leggja línuna í jörð á 9,6 km kafla, frá þeim stað sem línan sveigir til austurs frá veginum upp Hellisheiði Héraðsmegin að Vindfellshálsi í Vopnafirði.
Línan er á skipulagi tveggja sveitarfélaga, Múlaþings og Vopnafjarðarhrepps. Skipulagsvinnunni er lokið hjá Múlaþingi en breytt skipulag Vopnafjarðarhrepps liggur inni hjá Skipulagsstofnun til staðfestingar. Samningum er lokið við landeigendur.
Landsnet stefnir á að senda frá sér umsóknir um framkvæmdaleyfi í dag eða síðar í vikunni og stefnt að útboði í mars.
Framkvæmdir gætu þá hafist í vor og gangi allt að óskum verður nýi strengurinn spennusettur í haust.
Vorið 2022 verður framkvæmdum að fullu lokið með frágangi á leiðnni.
Áætlaður kostnaður við verkið er um hálfur milljarður króna.
Heimild: Austurfrett.is