Icelandair færir niður fjárfestingu í Lindarvatni sem vinnur að bygging hótels á Landssímareit.
Icelandair færir niður 13 milljónir dollara, um 1,6 milljarða fjárfestingu í Lindarvatni ehf., sem vinnur að byggingu hótels á Landssímareitnum við Austurvöll að því er fram kemur í uppgjöri félagsins sem birt var í gær.
Icelandair færði einnig niður 7 milljónir dollara, um 900 milljóna vegna 25% eignarhlutar félagsins í Icelandair Hotels á öðrum ársfjórðungi eftir að hafa selt 75% hlut í Icelandair Hotels til malasíska félagsins Berjaya Land Berhad.
Lindarvatn fylgdi ekki ekki með í kaupunum til Berjaya, en það er til helminga í eigu Icelandair og Dalsness, fjárfestingafélags Ólafs Björnssonar.
Eva Sóley Guðbjörnsdóttir, fjármálastjóri Icelandair, sagði að Icelandair væri að færa niður yfirverð hlutafjárins í Lindarvatni og Icelandair Hotels, í bókum Icelandair, á uppgjörsfundi flugfélagsins í morgun.
Icelandair vildi vera vildi vera varfærið og því hafi verið farið í niðurfærslu á fjárfestingunni. „Þetta lýsir ekki trú okkar á hótelfélaginu og Lindarvatnsreitnum til lengri tíma.
Hún er mikil. En í ljósi ástandsins og óvissunnar sem er vegna COVID fannst okkur rétt að halda sömu aðferðafræði í gegnum allan efnahagsreikninginn,“ sagði Eva Sóley.
Í ársreikningi Icelandair kemur fram að bókfært virði hlutafjárins Icelandair í Lindarvatni nemi 1,9 milljónum dollara, eftir niðurfærsluna, sem samsvarar um 240 milljónum króna. Þá nemur krafa Icelandair á Lindarvatni upp á 13,3 milljónir dollara jafnvirði um 1,7 milljarða króna.
Hótelið á Landssímareitnum verður 145 herbergi og rekið undir merkjum Curio by Hilton. Auk þess er unnið að því endurgera tónlistarsalinn NASA. Þá verða íbúðir, veitingastaðir og safn á reitnum.
Eignir Lindarvatns námu 7 milljörðum króna í lok árs 2019, eigið fé 488 milljónum króna og skuldir 6,5 milljörðum króna. Þar af var skuld við eigendur 2,4 milljarðar króna.
Heimild: Vb.is