Gert er ráð fyrir að Vestmannaeyjabær verji á næsta ári rösklega einum milljarði króna til ýmissa framkvæmda og verkefna, utan lögbundins rekstrar bæjarfélags, skv. fjárhagsáætlun sem samþykkt var fyrir helgina.
Þar má nefna byggingu slökkvistöðvar, endurbyggingu ráðhússins, ljósleiðaravæðingu og framkvæmdir við aðstöðu fyrir nýsköpunar- og frumkvöðlastarf.
Þá er gert ráð fyrir að verja hartnær 300 milljónum króna til heilsueflingar, umhverfisbóta, spjaldtölvuvæðingar í grunnskólunum, átaks í ferðamálum og fleira.
Samkvæmt fjárhagsáætlun verða tekjur Vestmannaeyjabæjar á næsta ári um 6,7 ma. kr. og gjöldin svipuð. Niðurstaða ársins er jákvæð um rétt rúmar 100 millj. kr. og að handbært fé í lok næsta árs verði um 2,6 ma. kr.
Þetta sagði Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri sýna sterka stöðu bæjarins. Vestmannaeyjabær þurfi þó að mæta ýmsum áskorunum, því framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga hafa lækkað töluvert milli ára.
Þá er ekki er gert ráð fyrir loðnuvertíð í útsvarstekjunum. Sömuleiðis hafi þrýstingur á aukna fjárfestingu bæjarins aukist, til þess að viðhalda og efla atvinnustig.
Heimild: Mbl.is