Bergþór Kristleifsson á Húsafelli undirbýr að næsta vor geti hafist framkvæmdir við byggingu nýs hverfis heilsárshúsa á stað sem nefnist Litlutunguskógur.
Deiliskipulag fyrir svæðið hefur verið til frá 2007 og gerir það ráð fyrir byggingu 54 húsa. Vegagerð og lagnavinna er þegar hafin á svæðinu.
Nú er auk þess sótt um stækkun skipulags þannig að hverfið rúmi 75 vel búin hús sem hæglega geta verið til heilsársbúsetu með öllum þeim þægindum sem farið er fram á.
Hverfið er gróið og skjólsælt og þaðan er víðsýnt, ofan til í Húsafellsskógi, ekki langt frá farvegi Hvítár.
Áætlað er að verktími við uppbyggingu hverfisins verði fimm ár og muni kosta 4-5 milljarða króna.
Að sögn Bergþórs er gert ráð fyrir þremur húsgerðum á svæðinu, en að minnstu húsin verði 108 fermetrar að grunnfleti.
Auk þess verður á svæðinu byggt sérstakt þjónustuhús sem nýtast mun íbúum sem þar dvelja í lengri eða skemmri tíma. Bergþór og hans fólk ætlar sjálft að byggja húsin.
„Við gerum ráð fyrir að öll húsin verði á steyptum sökkli og grunni en hyggjumst forsmíða timbureiningar inni á verkstæði hjá okkur og reisa á byggingarstað. Húsin verða svo með öllum þægindum til heilsársbúsetu.
Þannig er markhópur okkar fólk sem gjarnan vill vera sem mest úti á landi og starfa þar. Fyrirbrigðið „sumarhús“ á í okkar huga ekki lengur við, heldur byggjum við heilsárshús með öllum þeim þægindum sem markaðurinn kallar eftir; heitu vatni, ljósleiðara og svo framvegis.
Rúsínan í pylsuendanum hjá okkur er að þetta nýja hverfi býður upp á mjög gott útsýni niður héraðið og upp til jökla, þar sem landið er í meiri halla en núverandi byggð í skóginum,“ segir Bergþór í samtali við Skessuhorn.
Heimild: Skessuhorn.is