Framkvæmdir við byggingu göngu- og reiðbrúar yfir Þjórsá fyrir ofan Þjófafoss eru hafnar. Lágmarksrennsli er nú í ánni og er sá tími notaður til að steypa stöpla brúarinnar í farvegi árinnar.
Landsvirkjun byggir brúna. Framkvæmdin er liður í mótvægisaðgerðum vegna Búrfellsstöðvar 2 sem gangsett var fyrir rúmum tveimur árum.
Tilgangurinn er meðal annars að bæta aðgengi að Búrfellsskógi en hann hefur losnað aðeins úr tengslum við umhverfið eftir framkvæmdirnar við stækkun Búrfellsstöðvar.
Þá mun brúin tengja saman kerfi reiðvega og göngustíga sem eru beggja vegna Þjórsár, í sveitarfélögunum Rangárþingi ytra og Skeiða- og Gnúpverjahreppi.
Öllum tilboðum hafnað
Landsvirkjun bauð í sumar út byggingu 102 metra langrar stálbitabrúar í þremur höfum og með timburdekki.
Þrjú tilboð bárust og voru þau á bilinu 190 til 243 milljónir en kostnaðaráætlun Landsvirkjunar hljóðaði upp á tæpar 126 milljónir kr.
Öllum tilboðum var hafnað og ákveðið að skipta verkinu upp, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
Samið var við Ístak sem átti lægsta tilboð í útboðinu um að byggja undirstöður brúarinnar.
Björn Halldórsson, verkefnisstjóri hjá Landsvirkjun, segir að það sé flóknasti hluti verksins og sá sem mest óvissa ríki um.
Heimild: Mbl.is