Jóhannes Reykdal, ritstjóri Bílabloggs, vakti í fyrra athygli á hættunni sem skapast af þá nýlögðu malbiki á Vesturlandsvegi. Hann segir ástandið óbreytt.
Jóhannes Reykdal, blaðamaður og ritstjóri Bílablogg.is, segir þá hættu sem skapast af nýlögðu malbiki hérlendis nýtilkomna og um að kenna þeim hráefnum sem Vegagerðin nýtir nú til dags. Hann segist sakna þess að Vegagerðin beri öryggismál hérlendis saman við nágranna okkar á Norðurlöndum.
Mikil umræða hefur verið um öryggi vega hér á landi eftir banaslys sem átti sér stað á Kjalarnesi í sumar. Tveir bifhjólamenn létust í slysinu sem talið er að rekja megi til galla í malbiki sem var nýbúið að leggja á umræddan vegarkafla og gerði það að verkum að hann var mjög háll.
Í tilkynningu frá Vegagerðinni sem send var á fjölmiðla í dag kom fram að starfsmenn séu harmi slegnir vegna banaslyssins. Unnið verði að umfangsmikilli endurskoðun á verkferlum.
Tilefnið er viðtal Kastljóss frá því í gærkvöldi við Heiðrúni Finnsdóttur, dóttur hjónanna Finns Einarssonar og Sigríði Sigurðardóttur sem létust í umræddu slysi. Sagði hún föður sinn hafa haft þungar áhyggjur af lélegu malbiki á vegum landsins.
Enn hefur engu verið breytt
Jóhannes vakti sjálfur athygli á hættulegu malbiki á hringtorgum á Vesturlandsveginum í grein á vef sínum Bílablogg.is sem hann birti fyrir ári síðan. Í samtali við Fréttablaðið segir hann engu hafa verið breytt á hringtorgunum. Hálkuskilti spretti upp árlega eins og árviss njóli.
„Þessi umræða er mjög þörf og það er gott að henni sé haldið áfram,“ segir Jóhannes. „Þetta er enn þá vandamál og það sem er sérkennilegast við þetta er það að vegamálastjórinn núverandi tjáir sig þannig um þetta að nýtt malbik sé hreinlegra hálla og það sé ekkert við því að gera. En vandamálið er að þetta er ekki bara nýja malbikið, þetta er líka gamla malbikið.“
Hann segir að þar hafi verið flutt inn norsk steypa. En í henni eru stórir steinar og þegar þeir slitna að þá verða þeir glerhálir. Þetta þarf að laga, það þarf hreinlega að fræsa þessi hringtorg upp og þessa steina og laga þetta því um leið og það kemur vatnsdropi að þá verður þetta bara svell,“ segir Jóhannes.
Hann segir Vegagerðina lítið hafa gert hingað til. Hann tekur undir með Heiðrúni sem benti á það í Kastljósi í gær að það vanti frekara eftirlit með vegagerð á landinu.
„Hún kom vel inn á það í gær að það er ómögulegt að Vegagerðin sé sjálf með eftirlit. Að það sé enginn óháður aðili að fylgja því eftir. Því þetta á að nafninu til að vera á könnu verkfræðistofu en verkfræðistofan notar mælitæki sem eru frá starfsmönnum Vegagerðarinnar. Svo þetta er ekki alveg eins og þetta á að vera.“
Hann segist sakna þess að litið sé til vegagerðar á Norðurlöndunum, þar sem svipaðar aðstæður eru og hér á landi. „Það væri næsti flötur á þessu máli, að skoða það. Því í þessari umræðu hingað til, bæði í Kveik og í Kastljósi var ekki farið mikið í það.“
Heimild: Frettabladid.is