Home Fréttir Í fréttum Akureyringar mótmæla áfram háhýsabyggð á Oddeyri

Akureyringar mótmæla áfram háhýsabyggð á Oddeyri

177
0
Mynd: Kaffid.is

Yfir þúsund einstaklingar hafa nú skráð sig í nýjan Facebook-hóp til þess að mótmæla ákvörðun skipulagsráðs Akureyrarbæjar sem að hefur lagt til að auglýstar verði breytingar á aðalskipulagi Akureyrar sem nær yfir nýtt íbúðasvæði á Oddeyri.

<>

Á síðasta ári voru kynntar hugmyndir fyrir byggingu á allt að 11 hæða húsum á svæðinu en þær hugmyndir voru mikið gagnrýndar.

Nú hefur skipulagsráð komið til móts við athugasemdir um hæð bygginga með því að takmarka hæð þeirra við 25 metra yfir sjávarmáli sem þýðir að hámarki 7 hæða hús.

Í Facebook-hópnum „Enga háhýsabyggð á Oddeyrinni á Akureyri“ sem stofnaður var í gær segir að skipulagsráð ætli nú að láta Akureyringa mótmæla byggingu á svæðinu í þriðja skipti.

„Því verðum við bæjarbúar að láta þau vita hversu ósátt við erum við þessa miklu stefnubreytingu um að reisa háhýsi á Oddeyrinni og gjörbreyta þannig bæjarmynd Akureyrar.

Nú telur skipulagsráðið sig hafa brugðist við athugasemdum frá fjölmörgum bæjarbúum og öðrum hagsmunaaðilum með því að lækka háhýsin niður í 25 metra eða 7 hæðir.

Það er enn langt frá því deiliskipulagi sem samþykkt var 2018 og heimilaði 3-4 hæða byggingar á umræddu svæði. Það skipulag var í samræmi við lágreist umhverfið en myndi jafnframt stuðla að þéttingu byggðar sem er mjög jákvætt.“

Þá er sagt að skipulagsráð sé auk þess að hunsa athugasemdir Minjastofnunnar sem „leggst alfarið gegn hugmyndum að reist verði háhýsi, 6-11 hæðir, aftan við hin friðlýstu Gránufélagshús og í nágrenni við gamla og fíngerða byggð á Akureyri.“

Yfir þúsund manns hafa skráð sig í hópinn á innan við sólarhring og fjölmargir hafa tjáð sterkar skoðanir gegn áformum skipulagsráðs.

Hægt er að kynna sér hópinn nánar og skrá sig á Facebook með því að smella hér.

Heimild: Kaffid.is