Brunavarnir Rangárvallasýslu hafa nú fært sig í nýtt og glæsilegt húsnæði að Dynskálum 49.
Húsnæðið er 400 fm og leysir af hólmi 120 fm húsnæði sem Brunavarnir hafa notast við frá 1969.
Nýja aðstaðan uppfyllir allar nútíma kröfur til slökkvistöðva og þar er m.a. fyrirtaks búningsaðstaða, salur til námskeiðahalds og stórt útisvæði sem hentar vel fyrir minni æfingar.
Húsið var keypt nýtt af B. Sverrissyni ehf og var það Trésmiðja Ingólfs sem innréttaði en eftirlit með verkinu hafði Ólafur Rúnarsson.
Bygging húsnæðisins og framkvæmdin öll hefur gengið í heildina mjög vel og hefur verkið staðist kostnaðar- og tímaáætlanir með glæsibrag.
Það má með sanni segja að hin nýja slökkvistöð auki til mikilla muna öryggi íbúa og gesta í Rangárþingi og sannarlega ástæða til að gleðjast.
Formleg opnun og opið hús verður þó látið bíða betri tíma í ljósi aðstæðna í samfélaginu.
Heimild: Rangárþingi ytra