„Við gerum ekki athugasemdir við ákvörðunina. Ákvörðunin er rétt miðað við forsendur útboðsins,“ segir Óskar Sigvaldason, framkvæmdastjóri Borgarverks ehf., um þá ákvörðun Vegagerðarinnar að hafna tilboði fyrirtækisins í fyrsta áfanga Dynjandisheiðar.
Greint var frá málinu í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi.
Borgarverk átti lægsta boð en Vegagerðin ákvað í staðinn að ganga til samninga við Íslenska aðalverktaka, sem áttu næstlægsta boð.
Sú ástæða var gefin að Borgarverk hefði ekki staðist kröfur útboðsins um reynslu af stórum verkum.
„Við föllumst á skýringar Vegagerðarinnar og erum sammála því mati þeirra að fram hjá þessum kröfum verður ekki komist.
Borgarverk stóðst allar aðrar kröfur útboðsins, til dæmis um eiginfjárkröfur og heildarveltu fyrirtækisins.
Það eina sem stóð út af er að fyrirtækið hefur ekki verið með verksamning sem er 50% af þessu tilboði okkar,“ segir Óskar.
Hann segir Borgarverk einn reynslumesta verktaka landsins í vegagerð og vill taka sérstaklega fram að sú ákvörðun Vegagerðarinnar að semja við Borgarverk um annað verk, fyrsta áfanga í Gufudalssveit, sé algerlega óháð niðurstöðu Dýrafjarðarútboðsins.
„Engin tenging er á milli Gufudalssveitar og Dynjandisheiðar. Gufudalssveit var boðin út á undan og búið að taka tilboði Borgarverks áður en tilboð voru opnuð í Dynjandisheiði,“ segir Óskar.
Verkið í Gufudalssveit fellst í endurbyggingu og breikkun Vestfjarðavegar á 6,6 kílómetra kafla frá Gufudalsá að Skálanesi.
„15. september verður byrjað á Gufudalssveit,“ segir Óskar en Borgarverk á að skila veginum tilbúnum með bundnu slitlagi eigi síðar en 15. júlí á næsta ári, eftir tíu mánuði.
Heimild: Visir.is