Home Fréttir Í fréttum FÍB: Einkaframkvæmd þriðjungi dýrari en ríkisframkvæmd

FÍB: Einkaframkvæmd þriðjungi dýrari en ríkisframkvæmd

98
0
Mynd: Lára Ómarsdóttir - RÚV
Það er þriðjungi dýrara að fjármagna fimm tilteknar vegaframkvæmdir með aðkomu einkafjárfesta, eins og lagt er til í samgönguáætlun, en ef ríkið fjármagnar þær eingöngu.
Þetta segja útreikningar FÍB. Framkvæmdastjóri félagsins segir ríkið verða að fara betur með almannafé.

Í nýrri samgönguáætlun til 15 ára eru fimm framkvæmdir, auk Sundabrautar, nefndar sem hentugar samvinnuverkefni ríkis og einkaaðila.

<>

Þetta eru tvöföldum Hvalfjarðarganga, ný Ölfusársbrú, göng í gegnum Reynisfjall, ný Hornafjarðarbrúar og Axarvegur.

Félag íslenskra bifreiðaeigenda hefur reiknað út að mun dýrara sé að fjármagna þessar vegaframkvæmdir með einkaaðilum, en ef ríkið geri það sjálft.

„Ríkisvaldið hefur allt önnur lánakjör en almenni markaðurinn þannig að í svona stórum framkvæmdum vegur fjármagnskostnaðurinn svo þungt,“ segir Runólfur Ólafsson framkvæmdastjóri FÍB.

Kostnaður við þessar fimm framkvæmdir er áætlaður 44,3 milljarðar. FÍB telur fjármagnskostnaðinn verða 15,8 milljarða ef ríkið fjármagnar framkvæmdirnar á 2,2% vöxtum, og heildarkostnaðurinn yrði því rúmir 60 milljarðar.

Ef einkaaðilar fjármögnuðu 84% af kostnaðinum, á 4,5% vöxtum, yrði fjármagnskostnaður 73,6, auk 6,4 milljarða kostnaðar af innheimtu vegtolla. Kostnaðurinn í heild yrði því rúmir 80 milljarðar, eða þriðjungi hærri en við hreina ríkisframkvæmd.

Runólfur bendir á að starfshópur um fjármögnun vegaframkvæmda hafi mælt eindregið með ríkið fjármagnaði framkvæmdir. Þingmenn hafi tekið undir það, en það hafði ekki áhrif á niðurstöðuna.

„Meirihluti þingheims var tilbúinn að senda þennan viðbótarreikning á almenning og kannski líður einhverjum betur af því að þeir geta sagt að þetta sé ekki skattur heldur gjald.“

Runólfur hefur þó trú á að snúið verði frá þessum áætlunum. „Það er mikil andstaða við þetta í samfélaginu. Þingmenn eru fulltrúar okkar þannig að þegar upp er staðið þá hlusta þeir á okkur á endanum.“

Hann bætir við. „Við erum alltaf að taka þetta fé upp úr sömu vösunum. Reynum að fara betur með almannafé.“

Heimild: Ruv.is