Eftir að Kvika keypti Gamma ákváðu nýir eigendur að endurmeta virði sjóða Gamma, þar á meðal Gamma Novus. Eina eign Gamma Novus var fasteignafélagið Upphaf. Við endurmatið fór eigið fé sjóðsins úr 4,4 milljörðum króna í upphafi árs í fyrra niður í ekki neitt.
Nýir stjórnendur Gamma fólu endurskoðunarfyrirtækinu Grant Thornton að gera úttekt á fjármálum og bókhaldi Upphafs sem og skipulagi Gamma Novus og tengdra félaga. Úttektin liggur fyrir og var hún kynnt skírteinishöfum Gamma Novus í morgun.
Nær öll ábyrgð á herðum eins manns
Úttektin leiðir í ljós fjölmargar brotalamir í rekstri Upphafs þar sem meira og minna öll ábyrgð var sett í hendur þáverandi framkvæmdastjóra félagsins, Péturs Hannessonar.
Kveikur uppljóstraði því í mars að Pétur, og félag í hans eigu, hefðu fengið tuga milljóna króna greiðslur frá einum helsta verktaka Upphafs, Vélsmiðju Hjalta Einarssonar. Þær greiðslur voru tilkynntar til embættis héraðssaksóknara.
Óeðlilegar greiðslur tilkynntar til héraðssaksóknara
Greiðslur sem þessar virðast ekki einsdæmi því samkvæmt öruggum heimildum fréttastofu hefur Gamma kært greiðslur fleiri en eins samstarfsaðila Upphafs til Péturs á grundvelli úttektar Grant Thornton. Í úttektinni er vakin athygli á greiðslum til fimm aðila, samtals 265 milljónir króna.
Engir samningar liggja að baki þessum greiðslum og umfang vinnu eða þjónustu fyrir þær er óljóst.
Einhverjar greiðslur eru til aðila sem tengjast fyrrum stjórnendum Gamma eða öðrum sem komu að rekstri Gamma Novus.
Hluti þessara fimm greiðslna var tilkynntur til héraðssaksóknara en fyrrverandi starfsmenn Gamma eru ekki í hópi þeirra sem tilkynntir hafa verið til yfirvalda.
Lítið sem ekkert eftirlit með starfseminni
Úttektin sýnir einnig að ekki stóð steinn yfir steini í rekstri Upphafs. Lítið sem ekkert eftirlit og aðhald virðist hafa verið frá stjórn eða öðrum aðilum.
Fjárfestingaráð Gamma Novus virðist hafa hætt að koma saman árið 2017 og þegar þeir sem áttu að hafa eftirlit með starfseminni voru inntir svara við gerð útttektarinnar bentu þeir allir hver á annan.
Margvíslegar brotalamir voru í samningagerð við verktaka og þjónustuaðila. Í mörgum tilfellum voru ekki gerðir skriflegir samningar um viðskipti sem námu umtalsverðum fjárhæðum.
Óljóst er hvað réði vali á verktökum og því samningsformi sem þeir störfuðu eftir og lítið sem ekkert eftirlit var með fjárhag Upphafs eða framkvæmdum sem félagið stóð í.
Heimild: Ruv.is