Í sumar er áætlað að taka í notkun nýja skólphreinstöð á Akureyri. Framkvæmdir hafa staðið yfir í tæp 2 ár. Þar verður allt skólp frá bænum hreinsað, en í dag fara yfir 400 lítrar á sekúndu af óhreinsuðu skólpi í sjóinn.
Bygging hreinsistöðvarinnar hófst í júní 2018 og nú er húsið nánast tilbúið og uppsetning á tækjabúnaði langt komin. Þetta er mikið mannvirki og áætlaður heildarkostnaður er tæpur milljarður.
All skólp frá Akureyri hreinsað í stöðinni
„Þá verður allt skólp Akureyringa hreinsað eins og reglugerðir gera ráð fyrir,“ segir Haraldur Jósepsson verkefnisstjóri fráveitu hjá Norðurorku. „Þegar mest er í kerfinu hérna á Akureyri þá eru það um 460 sekúndulítrar og þessi stöð er byggð fyrir 750 sekúndulítra.“
400 metra löng útrásarlögn niður á 44 metra dýpi
Í stöðinni verður fyrsta stigs hreinsun og föst efni hreinsuð úr skólpi og Haraldur segir þriggja millimetra sigti í hreinsibúnaðinum. Efninu sem eftir situr verður pakkað og það flutt til urðunar, en vökvanum dælt út á 44 metra dýpi eftir 400 metra langri útrásarlögn. Til samanburðar er óhreinsuðu skólpi dælt um 90 metra frá ströndinni í dag. Og útrásarlögnin ein og sér er talsvert mannvirki. „Já, já, það tók tvo sólarhringa að koma henni hingað. Fyrst í sjóinn út af Gáseyri og svo að draga hana hingað í bæinn og svo að sökkva henni daginn eftir,“ segir Haraldur.
Gert ráð fyrir frekari hreinsun á sömu lóð
Og ef farið verði í frekari hreinsun með auknum búnaði þá sé gert ráð fyrir því og pláss fyrir stærra mannvirki á þessari sömu lóð. „Það kemur að því á einhverjum tímapunkti,“ segir hann. „Ég reikna með því að í framtíðinni verði farið að hreinsa skólp á Akureyri meira eins og annarsstaðar. Og við gerum ráð fyrir því, við höfum pláss fyrir meiri hreinsun.“
Heimild: Rúv.is