Home Fréttir Í fréttum Athafnamaður vill reisa sex þúsund fermetra flugskýli í Keflavík

Athafnamaður vill reisa sex þúsund fermetra flugskýli í Keflavík

452
0
Flugskýlið byggir á sömu teikningu og þetta skýli á Gatwick-flugvelli.

Hilmar Á. Hilmars­son at­hafna­maður segir allt til­búið fyrir upp­byggingu, bæði teikningar og deili­skipu­lag af hálfu sveitar­fé­lagsins. Það eina sem vantar sé lóðin.

<>

Ég hef verið að sækja um lóðir hjá Isavia síðustu þrjú ár til að ráðast í atvinnuuppbyggingu á Keflavíkurflugvelli, nú fæ ég þau svör að ég fái ekki lóð því Isavia er ekki með samning við ríkið,“ segir Hilmar Á. Hilmarsson athafnamaður.

Bjargfastur ehf., fyrirtæki Hilmars, falast eftir leigulóð til að reisa sex þúsund fermetra flugskýli og reisa 600 fermetra skrifstofubyggingu fyrir ýmiss konar flugstarfsemi inni á flugvallarsvæðinu í Keflavík.

Fyrirtækið sem mun nota lóðina er Ace Fbo ehf., sem sér um afgreiðslu fyrir einkaþotur og herflugvélar. ACE FB er nú með sams konar starfsemi í flugskýli 1 á Reykjavíkurflugvelli, sem var friðað nýverið.

Hilmar segir allt tilbúið fyrir uppbyggingu, bæði teikningar og deiliskipulag af hálfu sveitarfélagsins. Það eina sem vantar sé lóðin.

„Ég hef fengið þau svör frá Isavia að þetta strandi á því að það sé ekki samningur við ríkið um lóðina.

Formlega eigi ríkið lóðina og þeir geti ekkert gert fyrr en það sé komið,“ segir Hilmar.

„Það er fáránlegt að eitthvað sem myndi skapa atvinnu á Suðurnesjum strandi á skriffinnsku.

Nú er kjörið tækifæri fyrir uppbyggingu. Við höfum tapað viðskiptum til annarra landa því það eru engin flugskýli laus.“

Samkvæmt upplýsingum frá Isavia er undirbúningur fyrir útboð langt kominn. Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, segir lóðamálin í eðlilegu ferli.

„Lóðir á Keflavíkurflugvallarsvæðinu eru auðvitað takmörkuð gæði og ekki afhentar til einstakra aðila öðruvísi en að undangengnu auglýstu og opnu útboði. Undirbúningur undir útboð lóða er í eðlilegu ferli,“ segir Guðjón.

Heimild: Frettabladid.is