Home Fréttir Í fréttum Fyrsta flýtiverkið boðið út og skal lokið á fimm mánuðum

Fyrsta flýtiverkið boðið út og skal lokið á fimm mánuðum

605
0
Vegarkaflinn sem á að breikka er milli Hádegismóa og Vesturlandsvegar. Þegar vegurinn var upphaflega lagður var gert ráð fyrir breikkun og sprengt fyrir eystri akbrautinni. Mynd: VÍSIR/KMU.

Vegagerðin hefur boðið út tvöföldun Suðurlandsvegar norðan Rauðavatns í Reykjavík, frá Vesturlandsvegi að Bæjarhálsi og Hádegismóum. Ljúka á gerð eystri akbrautar en við það breikkar þessi 1,4 kílómetra vegarkafli úr tveggja akreina leið í fjögurra.

<>

Þetta er fyrsta stóra verkið sem Vegagerðin býður út á lista þingsályktunar um sérstakt tímabundið fjárfestingarátak, sem Alþingi samþykkti á mánudag, aðeins fimm dögum eftir að tillagan var lögð fram í þinginu. Auglýsing um útboðið birtist sama dag á vef Vegagerðarinnar.

Tilboðsfrestur rennur út þriðjudaginn 21. apríl og verða þau opnuð samdægurs. Samkvæmt útboðslýsingu skal verkinu að fullu lokið eigi síðar en 1. nóvember 2020.

Liður í verkinu er að lengja undirgöngin þar sem Krókháls liggur undir Suðurlandsveg.
Mynd: VÍSIR/KMU

Þetta þýðir að sá verktaki sem fær verkefnið þarf aldeilis að bretta upp ermar. Ef þær forsendur eru gefnar að það taki 3-4 vikur að yfirfara tilboð og ganga frá verksamningi og verktaki þurfi síðan 1-2 vikur til að undirbúa sig má vart búast við að hann geti hafist handa fyrr en í byrjun júnímánaðar. Þetta þýðir að hann þarf að klára verkið á innan við fimm mánuðum.

Verkið felst ekki aðeins í að leggja nýjan tveggja akreina veg með tvöföldu malbiki. Tengja þarf akbrautina við núverandi vegakerfi, hækka 20 brunna og tengja niðurföll, setja upp 30 ljósastaura og 3,4 kílómetra af vegriði. Þá þarf að lengja og breikka undirgöng við Krókháls.

Af öðrum verkum sem Vegagerðin hefur boðið út í þessari viku má nefna uppbyggingu og malbikun fimm kílómetra vegarkafla við Gaulverjabæ í Flóa, austan Stokkseyrar. Þar á að leggja klæðningu á Hamarsveg milli Félagslundar og Hamarshjáleigu. Þar er væntanlegum verktaka einnig gert að spýta í lófana því verklok eru 1. ágúst 2020, þannig að verktími verður vart meira en þrír mánuðir.

Í síðustu viku var boðin út gerð nýs 2,6 kílómetra vegarkafla í Ísafjarðardjúpi, um Hattardal í Álftafirði, sunnan Súðavíkur. Þar á að færa veginn út að ströndinni og fjær bæjunum í Hattardal og smíða nýja 17 metra langa brú í stað einbreiðrar brúar sem þarna er á Djúpvegi. Því verki skal lokið 15. júlí 2021.

Heimild: Visir.is