„Fyrstu viðbrögð mín við aðgerðum eru jákvæð, að grípa fljótt til aðgerða við þessar alvarlegu aðstæður skiptir miklu máli. Einnig er mikilvægt að stjórnvöld séu tilbúin að breyta aðgerðaáætlun og bregðast við því hvernig ástandið þróast.“
Þetta segir Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsambands Íslands og 2. varaforseti ASÍ, í Morgunblaðinu í dag.
Í efnahagspakka þeim sem ríkisstjórnin kynnti um helgina eru ýmis atriði er lúta að heimilunum og launafólki.
Tryggðar eru greiðslur til fólks í sóttkví og þegar starfshlutfall er minnkað að frumkvæði vinnuveitanda um minnst 20% vegna samdráttar í starfsemi. Gert er þá skilyrði að launþegi haldi að lágmarki 25% starfshlutfalli hjá vinnuveitanda.
Einnig verður veitt heimild til að taka út séreignarsparnað og endurgreiðslur á vsk. vegna viðhaldsvinnu við heimili og frístundahúsnæði hækkaðar í úr 60% í 100%.
„Ég hefði viljað sjá iðnaðarmenn betur tryggða hvað varðar tekjur í hlutastörfum og greiðslum ríkisins við þær aðstæður. Við gerum okkur hins vegar grein fyrir að núverandi ástand varir ekki lengi svo þetta ætti að sleppa.
Þá er jákvætt að stjórnvöld tóku vel í tillögu okkar að breyta verkefninu Allir vinna þannig að allur virðisaukaskattur af vinnu við endurbætur verður endurgreiddur líkt og gert var eftir efnahagshrunið.
Þá verður að grípa til aðgerða vegna verðtryggðra fasteignalána og í því sambandi hefur frysting verðtryggingar verið nefnd. Við þurfum síðan þegar við komumst fyrir veiruna að tryggja að mannaflsfrekar framkvæmdir fari af stað til að skapa störf,“ segir formaður RSÍ.
Heimild: Mbl.is