Verkamenn sem urðu vitni að banaslysi við nýbyggingu í Sunnukrika í Mosfellsbæ í gær eru verulega slegnir, að sögn lögreglu. Slysið hafi tekið mjög á alla hlutaðeigandi.
Verktakinn sem stendur að framkvæmdinni segir að haldið verði utan um starfsfólkið í dag og því boðið upp á áfallahjálp.
Slysið varð með þeim hætti að gólfplata hrundi í byggingunni við Sunnukrika um miðjan dag í gær.
Pólskur karlmaður á sextugsaldri lenti undir plötunni og lést. Annar maður, pólskur karlmaður um fimmtugt, slasaðist alvarlega í slysinu.
Líðan hans er eftir atvikum, að því er fram kom í tilkynningu frá lögreglu fyrir hádegi.
Verið að byggja heilsugæslustöð
Karl Þráinsson framkvæmdastjóri Framkvæmdafélagsins Arnarhvols, sem stendur að framkvæmdinni við Sunnukrika, segir í samtali við Vísi að fyrirtækið vinni í því með Vinnueftirlitinu að komast að því hvernig slysið bar að. Hann kveðst ekki geta tjáð sig frekar um tildrögin á þessu stigi.
Fyrirtækið hefur ekki sett sig í samband við fjölskyldur mannanna sem lentu undir plötunni en Karl segir að þeir séu starfsmenn undirverktaka. „En það verður gert.“
Þá hafa starfsmenn sem urðu vitni að slysinu hlotið áfallahjálp, fyrst frá áfallateymi Rauða krossins á vettvangi í gær.
„Það verður fundur aftur í dag og tekið utan um fólk,“ segir Karl.
Hlé hefur verið gert á öllum framkvæmdum að sögn Karls en húsnæðið sem verið er að byggja á að hýsa nýja heilsugæslustöð fyrir Mosfellinga, auk apóteks og nokkurra íbúða.
Fulltrúar Vinnueftirlitsins eru nú á vettvangi ásamt starfsmönnum Arnarhvols. Þá gerir Karl fastlega ráð fyrir því að þeir sem urðu vitni að slysinu í gær hafi fengið frí frá störfum.
Ræða við vitni
Valgarður Valgarðsson aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu segir í samtali við Vísi að engar nýjar upplýsingar fáist uppgefnar um rannsókn slyssins að svo stöddu.
Rannsókn sé í gangi, rannsóknar- og tæknideild lögreglu sé á vettvangi og þá verði áfram rætt við vitni.
Talið er að um tíu manns hafi verið á svæðinu þegar slysið varð.
Þá hefur lögregla haft samband við fjölskyldur beggja mannanna sem lentu undir plötunni.
Samstarfsmenn þeirra á slysstað hafi jafnframt þegið áfallahjálp. „Þeir voru verulega slegnir. Þetta tók á alla aðila,“ segir Valgarður
Heimild: Visir.is