Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, formaður skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkurborgar, segir að rýna þurfi vel í hvað hafi farið úrskeiðis við framkvæmdir á Hverfisgötu og hvers vegna þær hafi tafist um nokkra mánuði.
Nauðsynlegt hafi verið að skipta um allar lagnir í götunni enda þær orðnar 100 ára. Það hafi átt stærstan þátt í töfunum.
„Það er einmitt stóri þátturinn sem við þurfum að rýna í, í þessu máli.
Af hverju voru ekki til lagnaefni í landinu þegar að framkvæmdirnar voru í gangi? Af hverju þurfti að bíða eftir lögnum?
Það er ýmislegt þannig sem við þurfum að skoða en líka bara samstarf við verktaka hvernig hann skipuleggur sína vinnu. Þetta þarf allt að vinna smurt af því það er okkar ábyrgð á að þetta gangi vel, það er okkar ábyrgð að tryggja aðgengi allra.“ segir Sigurborg.
Ásmundur Helgason, sem rekur Gráa köttinn á Hverfisgötu, hefur leitað til lögmanns vegna framkvæmdanna. Viðskiptavinum hafi fækkað um 40%, framkvæmdirnar hamlað rekstrinum og afar erfitt sé að komast að veitingastaðnum þvert gegn því sem er kveðið á um í útboðslýsingu verkefnisins.
Sigurborg vill ekki segja til um það hvort það komi til greina að borga rekstraraðilum tafabætur. „Það er að sjálfsögðu allt í skoðun.
Það eru ákveðnir þættir sem að gengu ekki nógu vel, sérstaklega með það hvernig aðgengi var tryggt að þessum rekstraraðilum og að svæðinu af því framkvæmdasvæði er síbreytilegt, það er endalaust efni að koma og fara, það eru stórar vinnuvélar og það er mikið í gangi.
En við þurfum þá að skoða það sérstaklega ef það á að fara að ræða einhvern grundvöll um bætur, það eru ekki mörg fordæmi þess og það er þá bara eitthvað sem þarf að rýna mjög vel.“
Heimild: Ruv.is