Hér er samantekt af því helsta sem gerðist í vikum 37-38 við vinnu Dýrafjarðarganga.
Vinna hélt áfram við lagningu frárennslis- dren- og ídráttarlagna ásamt brunnum í hægri vegöxl á leggnum frá munna ganganna í Dýrafirði og að hábungu.
Sem fyrr var unnið við uppsetningu á einangrunarklæðingu til vatnsvarna í göngunum ásamt því að haldið var áfram að sprautusteypa yfir klæðingarnar.
Búið er að steypa 3 hluta í yfirbyggingu vegskálans í Arnarfirði og 5 hluta af sökklum. Unnið var við fyllingar meðfram vegskálanum í Dýrafirði og fyllingar á plani utan við munna undir fjarskiptahús og mastur.
Í Dýrafirði var haldið áfram með lagningu á neðra burðarlagi og frágangi á fláafleygum og skeringum. Sem fyrr var efnisvinnsla í fullum gangi í Arnarfirði og er verið að framleiða efni sem fer í veginn í göngunum. Í Arnarfirði voru einnig lögð ræsi og keyrt í fyllingar og fláafleyga.
Brúargólfið á brúnni yfir Hófsá var steypt og á nú einungis eftir að steypa sigplötur við brúna og verður þá allri steypuvinnu lokið í brúnum tveimur í Arnarfirði.
Á meðfylgjandi myndum má sjá munnann í Arnarfirði, neðra burðarlag í Dýrafirði og sprautusteypun á vatnsklæðingar.
Heimild: BB.is