Home Fréttir Í fréttum Breytt deiliskipulag á Vatnsstíg

Breytt deiliskipulag á Vatnsstíg

241
0

Borgarráð hefur samþykkt að auglýsa breytt deiliskipulag fyrir Frakkastígsreit sem snýr að Vatnsstíg.

<>

Breytt deiliskipulag snertir nokkrar lóðir á reitnum, þ.e. lóðirnar nr. 33, 35 og 37 við Laugaveg og númer 4 við Vatnsstíg.

Í breytingunni felst að húsin á Laugavegi verða gerð upp í upprunalegri mynd en heimilað verður að rífa húsið að Laugavegi 33a.

Þá verður húsið að Laugavegi 35 hækkað um eina hæð og timburhúsið lengt til austurs. Heimilað verði að byggja á baklóð, gamalt timburhús þar flutt, nýlegt steinhús rifið og nýtt hús reist í staðinn.

Þá verður timburhúsið að Vatnsstíg 4 rifið og nýtt hús reist í staðinn. Um er að ræða talsvert byggingarmagn sem fléttast vel inn í byggðina sem fyrir er en endurgerð gömlu húsanna fer fram samkvæmt skilmálum Minjastofnunar Íslands.

Á reitnum verða fjölmargar íbúðir fyrir gististarfsemi en einnig 10 – 12 almennar íbúðir en þar hafa verið sex íbúðir. Á neðri hæðum við Laugaveg verður þjónusta eða verslun.

Húsið við Vatnsstíg 4, sem var friðað, verður rifið samkvæmt skipulaginu með leyfi Minjastofnunar en það skemmdist illa í eldsvoða 2009.

Laugavegur 33 er tvílyft timburhús með risi og reist á hlöðnum sökkli árið 1902. Þrílyft steinsteypt viðbygging er við húsið og er hvorutveggja friðað.

Húsið verður gert upp í samræmi við upprunalega gerð og þar verður gististarfsemi í sex gistiíbúðum en einnig þjónusta á jarðhæð. Húsið verður tengt við Laugaveg 33b með litlum glerbyggingum og í því verður gististarfsemi á öllum hæðum.

Laugavegur 35. Eldri hluti þess er tvílyft timburhús sem byggt var 1894 á hlöðnum sökkli og er húsið með lágreistu mænisþaki. Heimilt verður að hækka friðaða steinsteypta viðbyggingu, sem reist var 1914 eftir teikningu Einars Erlendssonar húsameistara, um eina hæð að uppfylltum skilyrðum Minjastofnunar um frágang.

Heimilt verður einnig að lengja timburhúsið til austurs. Á baklóð hússins er gert ráð fyrir fjögurra hæða nýbyggingu sem verður byggð upp að framhúsunum og mun húsið tengjast Laugavegi 33b. Í húsinu verða allt að 39 gistiíbúðir.

Laugavegur 37 var byggt í tveimur hlutum. Fyrsti hlutinn var byggður úr timbri 1906 en síðar var byggt við það 1976 úr steinsteypu og er viðbyggingin bárujárnsklædd. Árið 1955 var húsinu breytt og settir á það stórir verslunargluggar. Húsið er tvær hæðir og að auki kjallari og rishæð.

Aftar í lóðinni stendur Laugavegur 37b sem er lítið timburhús á tveimur hæðum og upphaflega byggt 1894. Gert er ráð fyrir að þetta hús verði flutt af lóðinni en ekki er heimilt að rífa það. Á lóðinni er einnig einlyft, steinsteypt hús sem byggt er árið 1995 og er gert ráð fyrir að það verði rifið.

Heimilt verður að byggja innan byggingarreits lóðarinnar, sem nær að lóðamörkum að Laugavegi 35 og 39 og Hverfisgötu 54, þriggja hæða hús, auk kjallara og rishæðar með mansardþaki. Framan við það, að lóðamörkum Laugavegs 39, er heimilt að byggja einnar hæðar byggingu á lóð steinsteypta hússins sem mun víkja. Ofan á einnar hæðar nýbyggingunni verður heimilt að vera með þaksvalir. Í húsinu verða allt að 11 íbúðir ætlaðar til útleigu til ferðamanna sem er í samræmi við þá starfsemi sem fyrir er á lóðinni.

Heimild: Reykjavik.is