Home Fréttir Í fréttum Hringvegurinn loksins kláraður en með hjálp leiðarbreytingar

Hringvegurinn loksins kláraður en með hjálp leiðarbreytingar

256
0
Nýja brúin yfir Berufjörð hefur nú verið tekin í notkun. Með henni hvarf síðasti malarkafli hringvegarins. Mynd: Vísir/Stöð 2

Loksins er hægt að komast allan hringinn á bundnu slitlagi. Þessi þáttaskil urðu í samgöngumálum þjóðarinnar þegar umferð var hleypt á nýjan veg í botni Berufjarðar, sem tilkynnt var um í morgun.

<>

Þessi áfangi náðist þó talsvert seinna en væntingar voru um í árdaga Stöðvar 2 en þá voru menn að gera sér vonir um að malbikun hringvegarins lyki fyrir aldamót. Nítján árum síðar er verkið loksins í höfn.

Vegurinn um Breiðdal og Breiðdalsheiði er enn ómalbikaður. Þessi 24 kílómetra malarkafli var hins vegar felldur út sem hluti hringvegarins með leiðarbreytingu fyrir tveimur árum.
Mynd: Stöð 2/Friðrik Þór Halldórsson

Það væru raunar ennþá eftir 24 kílómetrar af malarvegi á hringveginum um Austurland ef samgönguyfirvöld hefðu ekki gripið til þeirrar kerfisbreytingar fyrir tveimur árum að færa hringveginn á kaflanum milli Egilsstaða og Breiðdalsvíkur, með því að láta hann liggja um Reyðarfjörð, Fáskrúðsfjörð og Stöðvarfjörð, í stað Breiðdalsheiðar.

Rauði leggurinn sýnir vegarkaflann milli Egilsstaða og Breiðdalsvíkur sem missti þjóðveganúmer 1 í nóvember 2017. Gula línan sýnir hringveginn eftir breytinguna.
Grafík/Guðmundur Björnsson.

Opnun brúarinnar yfir Berufjörð er samt sem áður einhver stærstu tímamót í samgöngumálum landsins frá því hringvegurinn opnaðist árið 1974. Nú, 45 árum síðar, er loksins hægt að aka allan hringinn á bundnu slitlagi, en í ofanálag styttist hringvegurinn um þrjá kílómetra með nýju brúnni.

Herlegheitunum á svo að fagna með borðaklippingu þann 14. ágúst næstkomandi.

Heimild: Visir.is