„Við erum að útbúa sérstaka brynju utan á kirkjuna, til þess að undirbúa okkur undir endalok alheimsins,“ segir Ólafur Rúnar Ólafsson, formaður sóknarnefndar Akureyrarkirkju, í samtali við mbl.is.
Hann bætir því síðan snögglega við að hann sé að sjálfsögðu að grínast, og hlær.
Hann útskýrir svo fyrir blaðamanni að vinna sé komin af stað við að múra nýtt ytra byrði á Akureyrarkirkju, þetta svipmikla mannvirki, sem varð eins og þrjár aðrar kirkjur í bænum fyrir skemmdarverkum í ársbyrjun 2017.
Ómögulegt reyndist að má ummerki um skemmdarverkin að öllu leyti af kirkjunni, þó að ýmislegt hefði verið reynt.
„Niðurstaðan var sú að það væri ekki hægt að gera þetta öðruvísi heldur en með því að setja alveg nýja klæðningu utan á kirkjuna. Það er auðvitað afar dýrt og þarfnast mikils undirbúnings. Bæði þurfti að finna viðeigandi efni utan á kirkjuna og eins að sækja peninga eitthvert. Við fengum styrki frá jöfnunarsjóði sókna og húsafriðunarsjóði, sem gerði okkur kleift að byrja á þessum framkvæmdum og það er það sem er í gangi núna, loksins, þetta löngu seinna.“
Hvimleitt þegar krotið sást á brúðkaupsmyndum
Ólafur Rúnar segir framkvæmdina hafa gengið afar vel síðustu daga og að iðnaðarmenn hafi staðið vaktina í blíðskaparveðri. Einhver litamunur mun verða á ytra byrði kirkjunnar eftir þetta fyrsta stig framkvæmda, en nú er hið minnsta búið að afmá skemmdirnar af kirkjunni og múra yfir þau svæði þar sem þær voru enn sýnilegar að einhverju leyti í múrhúðinni.
„Múrararnir munu sjá til þess að það verði sómasamlega frá þessu gengið, með því að skipta áföngum upp þannig að það verði ekki áberandi litamunur, það verður farið í suðurhlið og framhliðina núna og svo vonandi á næsta ári eða næstu tveimur árum verður hægt að klára þetta,“ segir Ólafur og bætir við að það hafi verið óskemmtilegt að horfa upp á ummerkin um skemmdarverkin.
„Það er svo einkennilegt, þær eru meira áberandi á ljósmyndum heldur en þegar maður stendur sjálfur fyrir utan kirkjuna,“ segir Ólafur. Sérstaklega segir hann að hafi verið hvimleitt þegar að ummerki um veggjakrotið á ytra byrði kirkjunnar hafi sést á brúðkaupsmyndum nýgifts fólks.
Hann segir að heildarkostnaður við þessar viðgerðir á Akureyrarkirkju verði um það bil 20 milljónir, þegar allt er talið saman.
Heimild: Mbl.is