Fjölmiðlanefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að með kostun þáttarins Miðbær Selfoss í þáttaröðinni Atvinnulífið hafi Hringbraut brotið gegn 2. mgr. 42. gr. laga um fjölmiðla sem fjallar um bann við kostun fréttatengds efnis. Hringbraut er gert að greiða milljón í stjórnvaldssekt vegna málsins.
Þátturinn Miðbær Selfoss var sýndur á sjónvarpsstöðinni Hringbraut og birtur á vef miðilsins 10. ágúst á síðasta ári. Í þættinum voru til umfjöllunar tillögur bæjarstjórnar um breytt aðal- og deiliskipulag í miðbæ Selfoss. Þátturinn var kostaður af Sigtúni þróunarfélagi, framkvæmdaaðila þeirra breytingaframkvæmda sem kosið var um í íbúakosningunum.
Fjölmiðlanefnd ákvað að taka málið til efnislegrar meðferðar að eigin frumkvæði í kjölfar fyrirspurnar frá íbúa á Selfossi.
„Við ákvörðun fjölmiðlanefndar segir m.a. að um reglur um bann við kostun frétta og fréttatengds efnis gangi út á að vernda upplýsingarétt almennings enda sé brýnt að almenningur geti mótað skoðanir sínar og dregið ályktanir út frá réttum og hlutlausum upplýsingum. Að mati fjölmiðlanefndar eigi þau sjónarmið ekki síst við í aðdraganda lýðræðislegra kosninga, hvort sem um sé að ræða kosningar sem fram fari á landsvísu eða íbúakosningar í sveitarfélögum,“ segir í ákvörðun fjölmiðlanefndar.
Mikilvægt sé að umfjöllun fjölmiðla í aðdraganda kosninga sé fagleg og vönduð og forða því að almenningur rugli saman auglýsingum, kostuðu efni og hlutlausum upplýsingum.
„Taldi fjölmiðlanefnd hæfilegt að stjórnvaldssekt vegna brotsins næmi 1.000.000 kr. Við ákvörðun sektarfjárhæðar var tekið mið af framangreindri niðurstöðu, alvarleika brots og þess að um ítrekað brot var að ræða“.
Hér er hægt að lesa niðurstöðu fjölmiðlanefndar í heild: Kostun fréttatengdrar umfjöllunar í þættinum Miðbær Selfoss
Heimild: Visir.is