Home Fréttir Í fréttum Stúdentar þurfa ekki að borga verktökum bætur

Stúdentar þurfa ekki að borga verktökum bætur

306
0
Mynd: RÚV

Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði Félagsstofnun stúdenta í gær af skaðabótakröfu Íslenskra aðalverktaka.

<>

Fyrirtækið stefndi Félagsstofnun stúdenta eftir að öllum tilboðum í byggingu stúdentagarða við Sæmundargötu var hafnað árið 2017.

Forsvarsmenn Íslenskra aðalverktaka töldu að ákvörðun Félagsstofnunar stúdenta hefði verið ólögleg og því ætti fyrirtækið rétt á skaðabótum vegna tapaðs hagnaðar af verkinu.

Félagsstofnun stúdenta bauð út hönnun og byggingu stúdentagarða við Sæmundargarða árið 2017. Byggja átti á lóð sem Reykjavíkurborg veitti endurgjaldslaust og fjármagna framkvæmdina með láni frá Íbúðalánasjóði.

Öll tilboð í verkefnið voru yfir kostnaðarmati samkvæmt reglum Íbúðalánasjóðs um lánveitingar til bygginga á almennum leiguíbúðum.

Því var öllum tilboðum hafnað. Þar á meðal aðal- og frávikstilboðum Íslenskra aðalverktaka. Forsvarsmönnum Félagsstofnunar stúdenta þótti frávikstilboð Íslenskra aðalverktaka svo frábrugðið aðaltilboðinu hvað byggingatækni varðaði að ekki væri hægt að taka afstöðu til þess innan útboðstíma.

Síðar var samið við Ístak um bygginguna þar sem tilboð þess fyrirtækis komst næst því að uppfylla skilyrði Íbúðalánasjóðs.

Dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur hafnaði málatilbúnaði Íslenskra aðalverktaka. Dómarinn benti á að lán frá Íbúðalánasjóði væri algjör og augljós forsenda framkvæmdanna eins og komið hefði fram í útboðsgögnum.

Þá hafnaði hann því sem órökstuddu að tilboð Íslenskra aðalverktaka hefði komist næst því að falla undir lánareglur Íbúðalánasjóðs. Dómarinn komst því að þeirri niðurstöðu að Félagsstofnun stúdenta mátti hafna öllum tilboðum og ganga til samninga við Ístak.

Heimild: RÚV.is