Bandaríski sjóherinn og verktakafyrirtækið ÍAV hafa undirritað samning um viðhald og endurbætur á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Utanríkisráðuneytinu.
Viðhaldsverkefni ÍAV á öryggissvæðinu taka til endurbóta á flugvélastæðum, akstursbrautum flugvéla og ljósakerfum fyrir flugvélastæði og akstursbrautir flugvéla í tengslum við komu kafbátaleitarvéla sjóhersins hingað til lands.
Áætlaður kostnaður er 11.500.000 Bandaríkjadalir, jafnvirði tæpra 1,4 milljarða króna.
Um er að ræða fyrstu framkvæmdir á vegum bandarískra stjórnvalda á Íslandi í að minnsta kosti 12 ár eða síðan varnarliðið hvarf af landi brott haustið 2006.
Búist er við að framkvæmdir hefjist á næstunni og taki um tvö ár.
Heimild: Sudurnes.net