Minjastofnun hefur ákveðið að skyndifriða þann hluta Víkurgarðs sem er innan Landsímareitsins í miðbæ Reykjavíkur. Er það vegna inngans fyrirhugaðs hótels sem vísa á út á borgartorgið sem þar er, miðað við núverandi skipulag.
Lilja Alfreðsdóttir, mennta og menningarmálaráðherra, samþykkti í gær, þriðjudag, tillögur Minjastofnunar um að friða aðeins þann hluta hins aldna kirkjugarðs sem fellur innan lóðamarka borgartorgsins eins og það er í dag.
Skyndifriðun Minjastofnunar nær þess vegna til stærra svæðis fyrri tillögur segja til um.
Á meðan skyndifriðun er í gildi eru allar framkvæmdir á Landsímareitnum óheimilar. Hún gildir í sex vikur eftir að ákvörðun er tekin og mun Lilja Alfreðsdóttir svo þurfa að taka ákvörðun á ný um hvort friðlýsa eigi varanlega stækkað svæði.
Deilt um inngang hótelsins
Víkurgarður var kirkjugarður Reykvíkinga um margar aldir áður en hann var lagður af og síðasta gröfin í honum tekin árið 1839 þegar Hólavallakirkjugarður var opnaður.
Samkvæmt tillögum Minjastofnunar sem sendar voru mennta- og menningarmálaráðherra 3. desember síðast liðinn var aðeins lagt til að afmarkað svæði hins aldna Víkurgarðs yrði friðlýst.
Svæðið var miðað út frá lóðamörkum í núgildandi deiliskipulagi svæðisins.
Miðað við þær friðlýsingartillögur sem Lilja hefur þegar samþykkt hefur friðlýsingin engin áhrif á Landsímareitinn og framkvæmdir þar.
Meira að segja er fallið frá hefðbundnu friðhelgunarsvæði 100 metra umhverfis hið friðlýsta svæði, enda næði það yfir aðliggjandi lóðir og götur.
Minjastofnun er ósátt við að áform um að inngangur á hótelið vísi út á borgartorgið, yfir hið friðlýsta svæðis og beitir þess vegna þessu úrræði, að skyndifriða nærri helming Landsímareitsins til viðbótar við friðlýsinguna sem Lilja samþykkti í gær.
Í tilkynningu Minjastofnunar sem birt var á vefnum í gærkvöldi segir að Lindarvatn ehf., lóðarhafi Landsímareitsins, hafi ekki hug á að breyta innganginum eins og Minjastofnun hafði lagt til.
„Ljóst er af samskiptum við lóðarhafa í lok desember 2018 að þeir hafa ekki hug á að breyta inngangi hótelsins eins og Minjastofnun hafði lagt til og hafði ástæðu til að ætla að hefði verið samþykkt,“ segir í tilkynningunni.
„Þess í stað eru nú mögulega áform um tvo innganga sem vísa að Víkurgarði og ljóst að ætlunin er að nýta garðinn sem aðkomusvæði hótelsins.
Slíkt er algerlega óásættanlegt af hálfu Minjastofnunar Íslands eins og ítrekað hefur komið fram á fundum og í erindum til lóðarhafa.“
Engar minjar undir Landsímahúsinu
Í tillögum Minjastofnunar sem sendar voru Lilju Alfreðsdóttur 3. desember 2018 segir í fylgiskjölum að engar fornminjar hafi fundist innan lóðar hótelsins. Fornleifauppgröftur fór fram á lóðinni árin 2016 og 2017.
Í rökstuðningi með tillögunni sem Lilja samþykkti segir orðrétt: „Nú er búið að kanna allt það svæði innan lóðar hótelsins sem kirkjugarðurinn náði yfir og þar eru engar grafir eftir.“
Heimild: Ruv.is