Home Fréttir Í fréttum Hættulegum gatnamótum fækkað

Hættulegum gatnamótum fækkað

223
0
Skjáskot af Ruv..is
Framkvæmdir eru hafnar við tvöföldun Suðurlandsvegar milli Hveragerðis og Selfoss. Verklok eru áætluð í september. Yfirverkstjóri segir að það verði strembið en eigi að takast. Umferðaröryggi eigi að aukast mjög.

Í síðasta mánuði skrifuðu Vegagerðin og Íslenskir aðalverktakar undir samning um fyrsta áfanga að breikkun þjóðvegar 1 á milli Hveragerðis og Selfoss.

<>

Tilboð Íslenskra aðalverktaka hljóðaði upp á 1.361 milljón króna. Þessi hluti af breikkun vegarins er tveggja og hálfs kílómetra langur, frá Hveragerði og nokkurn veginn að Kotstrandarkirkju.

Því til viðbótar á að leggja tvo hliðarvegi, Ölfusveg frá Ölfusborgarvegi að Hvammsvegi og Ásnesveg frá Vallavegi að Ásnesi.

Með þeim verður hættulegum gatnamótum á þessum kafla fækkað út fimm í tvenn. Brúin yfir Varmá verður breikkuð og undirgöng gerð þar austan við fyrir gangandi og ríðandi auk breytinga á lagnakerfum veitufyrirtækja og fleira.

„Þegar við skilum af okkur þá verður þetta 2+1 vegur en hann er unninn þannig að hann er 2+2 og er tilbúinn að gera hann að 2+2 þegar sú ákvörðun kemur.

Þannig að það þarf ekki að gera mikið til að setja hann í 2+2,“ segir Ágúst Ólafsson yfirverkstjóri hjá Íslenskum aðalverktökum.

Þetta er umangsmikið verk og skammur tími til að vinna það því verklok eru áætluð 15. september.

„Þetta verður strembið sérstaklega núna í vetur því við þurfum að standast tímasetningar 1. apríl á hliðarvegunum og það verður strembið að eiga við það núna í svartasta skammdeginu og verstu veðrum sem koma gjarnan í janúar, febrúar og mars.“

Meðal verkþátta sem unnið verður að í vetur eru malbikun og lagning klæðningar, sem teljast ekki einföld verk.

„Nei, ætli við verðum ekki bara að reyna að vera í góðu samstarfi við almættið og fá gott veður, alla vega biðjum við um það núna fyrir jólin,“ segir Ágúst Ólafsson.

Heimild: Ruv.is