Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, segir að framkvæmdir muni hefjast við Sundabraut innan þriggja ára, gangi áætlarnir eftir. Ráðherra var gestur Heimis Más Péturssonar í Víglínunni á Stöð 2 í hádeginu í dag.
Umræðan snerist að mestu að þriðja orkupakkanum áður en vikið var að samgöngumálum höfuðborgarsvæðisins.
Undir lok viðtalsins var Sigurður Ingi spurður að því hvort ráðist yrði í framkvæmdir við Sundabraut á næstu árum.
Ráðherra sagði að ef hugmyndir gangi eftir hafi hann trú á því að framkvæmdir við Sundabraut hefjist innan þriggja ára.
Gert hefur verið ráð fyrir Sundabraut í aðalskipulagsuppdráttum Reykjavíkur frá árinu 1975. Lagning Sundabrautar var talin ein megin forsendan fyrir byggð í Grafarvogi þegar uppygging hófst þar á fyrri helmingi níunda áratugarins.
Talin meginforsenda fyrir sameiningu Reykjavíkur og Kjalarness
Í greinargerð sem fylgdi tillögu Sjálfstæðisflokks í borgarstjórn vorið 2017 segir: „Auk þess var Sundabraut talin ein meginforsendan fyrir sameiningu Reykjavíkur og Kjalarneshrepps á sínum tíma.
Tillagan var samþykkt í borgarstjórn 21. mars 2017, flutningsmaður tillögunnar var Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.
Enn fremur segir í greinargerðinni: „Allt bendir til þess að arðsemi af slíkum framkvæmdum verði mikil. Brautin yrði mikilvæg tenging við Grafarvog, eitt fjölmennasta hverfi borgarinnar, við iðnaðarsvæðið á Esjumelum og mikilvægt öryggisatriði ef kæmi til þess að rýma þyrfti stóran hluta borgarinnar á skömmum tíma.“
Heimild: Visir.is