Viðræðuhópurinn var skipaður fulltrúum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, samgönguráðuneytisins og vegagerðarinnar. Þeir áttu að ná saman um fjármögnun, forgangsröðun og útfærslu framkvæmda í vegakerfinu á höfuðborgarsvæðinu, ekki síst almenningssamgöngum og Borgarlínu, sem og hjólastígum.
Skýrslunni var skilað til ráðherra í gær en hún verður ekki kynnt opinberlega fyrr en eftir helgi, þegar ríkisstjórn og sveitarstjórnir hafa fengið sína kynningu.
Í tilkynningu frá ráðuneytinu í kvöld segir að í framhaldinu verði farið í frekari viðræður um fjármögnun uppbyggingarinnar. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu er til dæmis enn óútfært hvernig kostnaðurinn skuli skiptast á milli ríkis og sveitarfélaga – þó herma heimildir fréttastofu að hópurinn leggi til að framkvæmdirnar verði fjármagnaðar að hluta með veggjöldum.
Kostnaður við fyrsta áfanga verkefnisins til fimmtán ára var í skýrslu stýrihóps í febrúar metinn rúmir 83 milljarðar og samkvæmt upplýsingum fréttastofu er það mat lítið breytt eftir vinnuna í haust.
Hópnum var gert að forgangsraða framkvæmdum á þrjú fimm ára tímabil, meðal annars þeim 35 kílómetrum sem Borgarlínan á að ná yfir í fyrsta áfanga. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu er gert ráð fyrir að byrja bæði á svokallaðri austur-vestur-leið á fyrsta fimm ára tímabilinu, sem og norður-suður-leiðinni, sem verði þó ekki endilega eftir Kringlumýrarbrautinni, heldur jafnvel um fyrirhugaða brú yfir Fossvog, en deiliskipulag fyrir hana er á leið í auglýsingu og áætlað er að hún verði innan við eitt ár í byggingu.
Ekki er hins vegar gert ráð fyrir að ráðast í flóknar framkvæmdir eins og að leggja götur í stokka á fyrstu fimm árunum, samkvæmt upplýsingum fréttastofu.
Heimild: Ruv.is