Samtök iðnaðarins (SI) mótmæla harðlega tillögum um breytta skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands. SI telja að með breytingunni verði málefni íbúðamarkaðar áfram munaðarlaus málaflokkur.
Fyrirhuguð breyting felur meðal annars í sér að ráðherra félagsmála verður einnig barnamálaráðherra og þá munu jafnréttismálin færast inn í forsætisráðuneytið. Það sem SI leggst gegn er hins vegar sú fyrirætlan að flytja málefni er varða mannvirki úr umhverfis- og auðlindaráðuneytinu til félagsmálaráðuneytisins. Er það gert með þeim rökum að undir það ráðuneyti heyri málefni er varða húsnæðislán, húsaleigu, fjöleignarhús o.s.frv.
„Samtökin hafa bent á að málefni íbúðamarkaðar, þ.m.t. uppbygging íbúðarhúsnæðis og skipulagsmál, séu munaðarlaus málaflokkur í stjórnarráðinu í ljósi þess að húsnæðismál eru á verksviði velferðarráðuneytisins, skipulagsmál og málefni mannvirkja eru á forræði umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og málefni sveitarfélaga eru á forræði samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins,“ segir í umsögn SI.
Þá segja samtökin að brýn þörf sé á að auka skilvirkni og einfalda framkvæmd innan málaflokksins en fyrirhuguð breyting sé ekki til þess fallin. Þvert á móti muni hún flækja kerfið. Málefni mannvirkja muni í raun fara úr því að vera jaðarmálaflokkur í einu ráðuneyti yfir í að vera jaðarmálaflokkur í öðru.
„Að mati samtakanna ætti að færa húsnæðismál úr velferðarráðuneyti og bygginga- og skipulagsmál úr umhverfis- og auðlindaráðuneyti yfir í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti þannig að úr verði öflugt innviðaráðuneyti þar sem þessi mikilvægi málaflokkur yrði í heild sinni,“ segir í umsögninni.
Heimild: Visir.is