Aðilar sem kannað hafa möguleika á alþjóðlegri stórskipahöfn við Langanes hyggjast ákveða um næstu mánaðamót hvort stofnuð verði tvö hlutafélög um verkefnið.
Þýska hafnafélagið Bremenports hefur þegar varið mörghundruð milljónum króna til undirbúningsrannsókna. Fjallað var um hafnaráform í Finnafirði í fréttum Stöðvar 2.
Hafnarmannvirki undir Gunnólfsvíkurfjalli fóru fyrst inn á aðalskipulag fyrir meira en áratug en svæðið er á milli Þórshafnar og Bakkafjarðar.
Fyrir fjórum árum komst hreyfing á málið þegar sveitarfélögin Langanesbyggð og Vopnafjarðarhreppur gengu til samstarfs við þýska félagið Bremenports og verkfræðistofuna Eflu. Viljayfirlýsing var svo undirrituð fyrir tveimur árum.
Hugmyndin byggir á því að með bráðnun hafíss norðurslóða styttist siglingaleiðin milli Asíu og Evrópu verulega, norðausturleiðin stytti siglinguna um 5.200 sjómílur eða um fimmtán sólarhringa.
Stór gámaskip sigli um íshafið, farminum verði umskipað á Íslandi, og önnur gámaskip flytji svo farminn milli Íslands og hinna ýmsu hafna Evrópu og Norður-Ameríku.
Rannsóknir sem Bremenports kostaði benda til að svæðið henti vel til hafnargerðar og að kostnaður við framkvæmdir verði innan eðlilegra marka.
Það að eitt stærsta hafnafyrirtæki Evrópu verji þannig háum fjárhæðum til undirbúningsrannsókna þykir sterk vísbending um að menn, sem ætla má að hafi þekkingu á alþjóðlegum siglingum, telji þetta raunhæfan kost.
Þá hefur þriðja stærsta skipafélag heims, hið kínverska Cosco, sýnt höfninni áhuga, og sendi fulltrúa sína til Íslands í fyrra til viðræðna um málið.
En nú er komið að því að ákveða hvort kennitala verði sett á verkefnið, eins og Elías Pétursson, sveitarstjóri Langanesbyggðar, orðar það. Samstarfsaðilarnir fjórir eiga í viðræðum um stofnun tveggja hlutafélaga, þróunarfélags og rekstrarfélags, og vonast þeir til að það skýrist í kringum næstu mánaðamót hvort verkefnið verði þannig fært yfir á næsta stig.
Elías tekur fram að enn sé mörgum spurningum ósvarað. Þróunarferli taki þrjú til fjögur ár, þá eigi eftir að finna viðskiptavini, og ef skipafélög hafi áhuga, þá megi gera ráð fyrir að hafnargerðin taki þrjú til fimm ár. Ef allt gangi upp verði höfnin tilbúin eftir áratug.
Heimild: Visir.is