Verktakinn, Ósafl, krefst þess að fá greiddar bætur upp á milljarða vegna þeirra tafa sem hafa orðið við gerð Vaðlaheiðarganga, í yfir 20 mismunandi kröfum á verkkaupann, Vaðlaheiðargöng hf. Morgunblaðið greinir frá.
Stærsta krafan vegna heita vatnsins
Forsvarsmenn fyrirtækjanna segja að ekki liggi fyrir hver heildarupphæðin er, en stærsta krafan er vegna innflæðis heita vatns í göngin, upp á tvo milljarða króna.
Sigurður Ragnarsson, stjórnarformaður Ósafls og forstjóri ÍAV, vill ekki tjá sig um málið. Kröfur Ósafls eru byggðar á mörgum atriðum, meðal annars kostnaði við að hafa tæki og vélar fyrir norðan, sem ekki hafi nýst í önnur verk, launakostnað og ýmsu fleiru sem skrifa má á tafir við verkið.
Upphaflega var veitt 8,7 milljarða framkvæmdalán vegna verksins, og svo viðbótarlán árið 2017 upp á 4,7 milljarða.
Aldrei komið til tals að Alþingi þyrfti að samþykkja nýtt lán
Valgeir Bergmann, framkvæmdastjóri Vaðlaheiðarganga hf., vildi lítið tjá sig um málið að svo stöddu, og segir að aldrei hafi komið til tals að Alþingi þyrfti að samþykkja nýtt lán, vegna ganganna, eins og fram kemur í frétt Morgunblaðsins. Hann segir Ósafl ekki hafa lokið við að koma fram með sínar kröfur.
Sáttanefnd var sett á laggir vegna þessa, og felldi hún nú sinn þriðja úrskurð, sem ekki er opinber. Valgeir segir að ef niðurstaða náist ekki, fari málið fyrir dómsstóla, en Vaðlaheiðargöng hf. eru ósátt við að verktakinn taki mun lengri tíma í verkið en áætlað var, eftir að allar óvæntar hindranir voru úr vegi. Þess megi því vænta að Vaðlaheiðargöng geri mótkröfur á verktakann.
Heimild: Ruv.is