Hafa unnið upp sex vikna seinkun
Tæpt ár er síðan fyrsta sprengja Dýrafjarðarganga var sprengd. Byrjað var að grafa sex vikum á eftir áætlun en nú er búið að vinna upp þá seinkun.
„Aðstæðurnar hafa verið ágætar, bergið ágætt, svona þokkalegt, mannskapurinn æðislegur, frábærir kallar,“ segir Karl Garðarsson, verkefnastjóri hjá Suðurverki. Og ekkert komið upp á – „Ekkert komið upp á, sem betur fer, ekkert stórvægilegt.“
Tekur góðu gengi með fyrirvara
Að meðaltali hafa verið grafnir 70,5 metrar á viku og 300 metrar á mánuði sem er betri árangur en áætlanir gerðu ráð fyrir. Karl tekur þó góðu gengi með fyrirvara. „Það gengur vel núna og er búið að ganga vel upp á síðkastið en svo geta hlutirnir farið á hliðina. Eins og ef jarðfræðin er ekki hagstæð. Við sjáum það svosem núna að hún er ekki jafngóð og hún hefur verið. Þannig að það er erfitt að segja,“ segir Karl.
Styttist í fyrstu sprengingu Dýrafjarðarmegin
Leitast er við að grafa göngin upp í móti og var byrjað Arnarfjarðarmegin. Gangagerðarfólk hefur því dvalið þeim megin, innilokað milli snjóþungra heiða síðasta vetur. Miðað er við að ná hápunkti ganganna, sem er tæpa 3700 metra inni í fjallinu, áður en gröftur hefst Dýrafjarðarmegin. Nú vantar um 350 metra upp á að þau taka að halla til Dýrafjarðar. Karl segist ekki hafa óttast það að ná ekki hápunktinum fyrir veturinn.
Framkvæmdir hafnar í Dýrafirði
Í Dýrafirði hefur verið unnið að undirbúningi, lagningu vega og forskeringu ganganna. Stefnt er að því að fyrsta sprengingin Dýrafjarðarmegin verði um miðjan október. Nokkrir starfsmenn verða eftir í Arnarfirði þar sem vinna hefst við lagnir inni í göngunum. „Hinir fara í Dýrafjörð og það verður svo sem auðveldara með samgöngur og þess háttar,“ segir Karl. Og þeir komast í sund á sunnudögum? „Já, fyrir þá sem það vilja, þá komast þeir í það.“
Heimild: Ruv.is