Home Fréttir Í fréttum Breikkun Suðurlandsvegar boðin út

Breikkun Suðurlandsvegar boðin út

337
0
Mynd: RÚV - Kolbrún Þóra Löve - RÚV
Breikkun eins hættulegasta vegarkafla landsins, á hringveginum milli Hveragerðis og Selfoss, verður boðin út í næsta mánuði og framkvæmdir gætu hafist fyrir árslok. Raunhæft er að ljúka breikkun á fjórum árum, segir verkefnisstjóri hjá Vegagerðinni.

Tvöföldun Suðurlandsvegar frá höfuðborgarsvæðinu að Selfossi hefur lengi verið á óskalista vegfarenda. Árið 2006 voru þáverandi forsætisráðherra afhentir undirskriftalistar.

<>
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Aldís Hafsteinsdóttir

„Við treystum því að ákvörðun verði tekin um að fara í tvöföldun með engum bráðabirgðalausnum um tveir plús einn, heldur að það verði tvöfaldað alla leiðina austur á Selfoss, enda er það nauðsynlegt,“ sagði Aldís Hafsteinsdóttir bæjarstjóri Hveragerðis í sjónvarpsfréttum af því tilefni.

Fyrsta skóflustungan að tvöföldun var tekin haustið 2011 af Ögmundi Jónassyni þáverandi innanríkisráðherra. Breikkun eða tvöföldun hefur síðan verið gerð í áföngum.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Kristján L. Möller
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ragnheiður Hergeirsdóttir

En ekki hefur enn verið byrjað á þeim kafla Suðurlandsvegar þar sem flest banaslys hafa orðið. Það er milli Hveragerðis og Selfoss:

„Þar er það einfaldlega vegna þess að við erum viss um það og vitum það bara það mun umhverfismatið, skipulagsmál, að það taki lengri tíma,“ sagði Kristján L. Möller þáverandi samgönguráðherra 13. mars 2018. Í fréttum um sama mál 12. apríl 2008 sagði Ragnheiður Hergeirsdóttir þáverandi bæjarstjóri Árborgar:
„Við leggjum mikla áherslu á að það verður að fara af stað í þessa framkvæmd, þetta er hættulegasti kaflinn milli Selfoss og Hveragerðis.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Guðmundur Valur Guðmundsson

Guðmundur Valur Guðmundsson verkefnisstjóri framkvæmdarinnar hjá Vegagerðinni segir undirbúning á góðum rekspeli:
„Við ætlum okkur að bjóða núna út í haust verkefnið þannig að framkvæmdir gætu þá hafist undir loks árs.“

Það verður fyrsti áfangi, sem verður rúmir tveir kílómetrar frá Varmá austan Hveragerðis að Gljúfrárholti og á að vera tilbúinn í lok næsta árs. Samtals verður kaflinn 12 kílómetrar frá því þegar Kömbunum sleppir og að Biskupstungnabraut.

„Við ættum að geta unnið þetta á líklega svona fjórum árum. Það væri raunhæfur framkvæmdatími.“

Á tveimur köflum verður veglínan önnur en nú er og gamli vegurinn þá notaður fyrir aðra umferð, enda verða bara tvær tengingar inn á hringveginn. Nú eru þær 22. Meginmarkmiðið er að auka umferðaröryggi og akstursstefnur verða aðskildar en vegurinn verður breikkaður í tveir plús einn veg. En af hverju ekki að tvöfalda veginn?

„Við erum í rauninni bara að fara vel með fé og hérna frestum í raun og veru einni akrein til þess ja bara að komast lengra.“

Undirbygging vegarins verður þó þannig að hægt verður að bæta einni akrein við. Næsta vor verður hægt að fara í útboð næsta áfanga. Það hillir því kannski undir að þessi hættulegi vegkafli heyri sögunni til.

Heimild: Ruv.is