Home Fréttir Í fréttum Óvíst hvað verður um Orkuveituhúsið

Óvíst hvað verður um Orkuveituhúsið

210
0
Mynd: RÚV
Orkuveita Reykjavíkur hefur ekki tekið ákvörðun um það í hvaða aðgerðir verður ráðist vegna mikilla rakaskemmda á húsi Orkuveitunnar. Um það bil ár er liðið síðan tilkynnt var að stór hluti húsnæðisins væri ónýtur.
Seint á síðasta ári keypti Orkuveitan húsið af lífeyrissjóðum. Þá var talað um að kostnaður við húsnæðiskaup og viðgerðir nægu numið sjö og hálfum milljarði króna. Það væri álíka fjárhæð og myndi kosta að byggja nýjar höfuðstöðvar en samt hagkvæmasti kosturinn í stöðunni.

Samkvæmt upplýsingum frá Orkuveitunni í dag hefur engin ákvörðun verið tekin um næstu skref. Unnið hefur verið að nánari útfærslu þeirra leiða sem voru kynntar sem möguleiki í fyrra og verið er að meta kostnað við þær.

<>

Meðal annars var talað um að laga húsið eða rífa það og þá annað hvort reisa nýtt hús eða endurinnrétta önnur hús. Niðurstöður í þeim efnum gætu legið fyrir á næstu vikum eða næstu mánuðum.

Í desember skipaði Héraðsdómur Reykjavíkur matsmann að beiðni Orkuveitunnar til að meta skemmdir og hvenær þær komu fram, einnig hvort hönnun og framkvæmd hafi uppfyllt kröfur um vönduð vinnubrögð.

Matsskýrsla liggur ekki fyrir. Matsbeiðnin beindist að ellefu fyrirtækjum. Þau eru Byko, Efla, Hornsteinar arkitektar, Íslenskir aðalverktakar, Lota ehf., Olíuverzlun Íslands, Teiknistofa Ingimundar Sveinssonar, Verkfræðiþjónusta Magnúsar Bjarnasonar, Verkís, VSÓ ráðgjöf og ÞG verktakar.

Raki ári eftir að húsið var tekið í notkun

Orkuveituhúsið var tekið í notkun árið 2003. Aðeins ári síðar varð fyrst vart leka. Það var á austurhlið vesturhússins. Leka varð vart á þaki hússins 2009 og aftur 2014.

Forsvarsmenn Orkuveitunnar greindu svo frá því í fyrrasumar að vesturhús Orkuveitunnar væri ónýtt vegna raka og myglu.

Þá þegar var búið að verja hálfum milljarði króna í tilraun til að laga húsið eftir að starfsmenn veiktust árið 2015.

Deilt var um ástæður og skýringar á skemmdunum. Orkuveitan óskaði sem fyrr segir mats á hvar ábyrgðin lægi. Verktakar og aðrir sem unnu að byggingu hússins töluðu um að mikill hraði hafi einkennt framkvæmdirnar.

Einn verktaki sagðist hafa verið látinn leggja parket á blauta steypu, og ekki samþykkt að gera það fyrr en hann fékk yfirlýsingu um ábyrgðarleysi sitt.

Byggt, selt og keypt á ný

Árið 2013 seldi Orkuveitan lífeyrissjóðum og fjárfestingasjóðum húsnæði sitt og leigði það til baka. Að auki voru ákvæði um hugsanleg kaup Orkuveitunnar á húsinu síðar. Þessi viðskipti voru hluti af ráðstöfunum stjórnenda Orkuveitunnar til að koma fjárhag fyrirtækisins í lag.

Þegar í ljós kom hversu alvarlegar skemmdirnar voru mat stjórn Orkuveitu Reykjavíkur mögulegar leiðir.

Niðurstaðan var að betra væri að kaupa húsnæðið í fyrra heldur en að ráðast í aðgerðir og annað hvort kaupa húsið síðar, eins og ákvæði voru um í samningi, eða flytja úr húsinu að leigutíma liðnum.

Heimild: Ruv.is