Home Fréttir Í fréttum Framkvæmdir eru hafnar við Brúarvirkjun

Framkvæmdir eru hafnar við Brúarvirkjun

303
0
Mynd: RUV
Framkvæmdir eru hafnar við Brúarvirkjun í Biskupstungum. Landvernd hefur tvívegis kært framkvæmdaleyfi virkjunarinnar og krafðist þess í mars að fyrirhugaðar framkvæmdir yrðu stöðvaðar.

Brúarvirkjun er fyrsta vatnsaflsvirkjun HS Orku. Framkvæmdir hófust núna í maí og eru áætluð verklok á vormánuðum 2020. Virkjunin er 9,9 megavatta rennslisvirkjun. Samkvæmt upplýsingum frá HS orku á virkjunin að styrkja afhendingaröryggi raforku í nágrannabyggðum sem séu meðal annars fjölmörg gróðurhús. Svæðisstjórinn segir að lítil sjónmengun muni verða af virkjuninni.

<>

„Við búum til inntak og þá kemur lítið inntakslón og síðan gröfum við fallpípuna hérna niður. Hún kemur hins vegar ekki til með að sjást því hún fer alfarið ofan í jörðina. Síðan kemur hérna stöðvarhúsið sem mun sjást lítið og falla inn í landslagið en að sjálfsögðu mun áin vera tóm. Þessi virkjun var sett í umhverfismat, síðan hefur sveitarfélagið gefið út framkvæmdaleyfi og eftir því vinnum við.“ segir Guðmundur Hagalín Guðmundsson, svæðisstjóri.

Þrenn aðildarsamtök Landverndar kærðu fyrra framkvæmdaleyfið í nóvember. Samtökin gagnrýndu að ekki hefðu verið rannsökuð áhrif á gróður og fuglalíf og var framkvæmdaleyfið dregið til baka. Sveitarfélagið gaf út nýtt framkvæmdaleyfi sem náttúruverndarsamtök Suðurlands og Landvernd kærðu og kröfðust þess að framkvæmdir yrðu stöðvaðar. Form- og efnisgallar hafi verið á leyfinu sem eigi að ógilda.

„Við biðum róleg meðan úrskurðarnefnd kærumála tók þá kæru fyrir og niðurstaðan var að við skyldum halda áfram og þá héldum við áfram.“

Ef litið er til andmæla náttúruverndarsinna og Landverndar er ljóst að virkjunin er umdeild. Guðmundur segir að það sé ekkert nýtt.

„Miðað við það sem Orkustofnun gefur út þá þurfum við rafmagn. hvar við eigum síðan að bera okkur niður til þess að sækja það, það læt ég orkufyrirtækin um að ákveða.“ segir Guðmundur.

Heimild: Ruv.is