SORPA bs. og Ístak hf. hafa skrifað undir samning um byggingu gas- og jarðgerðarstöðvar.
Samningurinn er stærsti samningur sem SORPA hefur gert um nýframkvæmdir frá stofnun byggðasamlagsnins.
Með framkvæmdinni verður endurnýtingu lífræns heimilisúrgang á höfuðborgarsvæðinu tryggð. Gas- og jarðgerðarstöðin mun taka til vinnslu allt að 36.000 tonnum af heimilisúrgangi á ári. Gólfflötur byggingar er samtals áætlaður 12.000 m2. Stöðin verður reist á svæði SORPU í Álfsnesi, en Reykjavíkurborg hefur úhlutað SORPU lóð á Álfsnesi sem er 85.000 m2 að stærð. Ætlað er að hægt verði að tvöfalda stærð stöðvarinnar í framtíðinni ef þörf krefur.
Stöðin samanstendur af móttökuaðstöðu fyrir úrgang, vinnslusal og tíu þroskunarklefum fyrir lífrænan úrgang, auk tanka til hauggasgerðar. Stöðin mun anna allt að 36.000 tonnum af lífrænum heimilisúrgangi og er áætlað að framleiðslan verði annars vegar um 3 milljónir Nm3 af metangasi, er nýtist sem eldsneyti á ökutæki, og hins vegar 10-12.000 tonn af jarðvegsbæti sem hentar til landgræðslu. Til viðbótar við vinnslusvæðin verður aðstaða fyrir fræðslu og starfsmannaaðstaða ásamt tæknirýmum.
Samið var við Aikan/Solum AS í Danmörku að undangengnu útboði á evrópska efnahagssvæðinu, í árslok 2016 um tæknilausn stöðvarinnar. Verkfræðistofan Mannvit hefur haldið utan um vinnu við útboð og Batteríið Arkitektar huga að útliti stöðvarinnar.
Framkvæmdir hefjast uppúr miðjum ágúst og stefnt er að opnun stöðvar í árslok 2019. Þegar stöðin verður að fullu komin í gagnið er ráðgert að yfir 95% heimilisúrgangs sem berst til móttöku- og flokkunarstöðvar SORPU í Gufunesi verði endurnýttur með einum eða öðrum hætti.
Heimild: Sorpa.is