Home Fréttir Í fréttum Rigning tefur malbikun stærri vegarkafla

Rigning tefur malbikun stærri vegarkafla

208
0
Mynd: rúv
Vætutíðin hefur áhrif á umbætur vega á Suðvesturhorni landsins. Óskar Örn Jónsson, forstöðumaður framkvæmdadeildar hjá Vegagerðinni, segir að malbikun stórra vegarkafla, eins og til að mynda í Ártúnsbrekku, bíði þess að það geri samfelldan þurrk í tvo til þrjá daga.

„Á Suðurlandi þar sem tíðarfarið hefur verið mjög óhagstætt hefur þetta bara gengið furðu vel. Við erum með ansi marga malbikskafla hérna á Suðurlandi og það er ekki alveg eins viðkvæmt fyrir rigningu eins og klæðingar sem eru ríkjandi úti á landi. Hins vegar viljum við fá betri tíð til að ljúka þeim verkefnum sem eru á áætlun. Við erum að bíða eftir lengri þurrum köflum til að geta ráðist í stærri og lengri vegarkafla. En ég er þokkalega ánægður með framvindu mála í ljósi þess hvað það er búið að rigna mikið. Mér sýnist að við séum nokkurn veginn hálfnuð með þau verkefni sem við ætluðum að ráðast í,“ segir Óskar.

<>

Ártúnsbrekkan er einn af þeim vegarköflum sem ekki er unnt að malbika fyrr en það styttir upp í tvo til þrjá daga samfellt. „En það eru ýmiss ráð til þess að bregðast við þessu. Við erum með eitt gengi á nóttunni og tvö á daginn. En fyrir lengri kafla þurfum við 2-3 daga. En við gætum sett fleiri næturvaktir ef við fá tvo daga frekar en þrjá. Ef við fáum ekki þurrk eftir 2-3 vikur þá lendum við í vandræðum með þessa kafla,“ segir Óskar.

Veður hefur verið hagstætt vegagerð á Norður- og Austurlandi. „Við erum með mjög metnaðarfulla áætlun í ár þar sem við fengum aukafjárveitingu frá ríkisstjórn. Það má segja að það séu ansi mörg verkefni hjá okkur. Við erum að halda áætlun alls staðar annars staðar en á Suðvesturhorni landsins,“ segir Óskar.

Heimild: Ruv.is