Tekin hefur verið skóflustunga að nýju frystihúsi Samherja á Dalvík, en börn af leikskólanum Krílakoti áttu heiðurinn af skóflustungunni ásamt starfsfólki Samherja, þeim Sigurði Jörgen Óskarssyni vinnslustjóra, Gesti Geirssyni framkvæmdastjóra landvinnslu og Ragnheiði Rut Friðgeirsdóttur gæðastjóra.
Þetta kemur fram á vef Dalvíkurbyggðar. Segir þar að undanfarið hafi verið unnið að landfyllingu á svæðinu, sem nú sé að mestu lokið. Svæðið er nú tilbúið fyrir næsta áfanga framkvæmdarinnar en AVH arkitektar á Akureyri eru hönnuðir nýja hússins.
Skapast möguleikar fyrir bæjarfélagið
Fram kom í ræðu Þorsteins Más Baldvinssonar, forstjóra Samherja, við undirritun lóðaleigusamnings við bæjarfélagið í maí á síðasta ári, að með samningnum væri tekið stórt skref í átt að nýrri og fullkomnari vinnslu á Dalvík.
Dalvíkurbyggð hefði þá í nokkurn tíma unnið að hugmyndum að endurbótum á hafnarsvæðinu, meðal annars til að mæta mikilli fjölgun ferðamanna og tengdri starfsemi.
Með því að flytja starfsemi Samherja á hafnarsvæðið skapist möguleikar fyrir bæjarfélagið til að skipuleggja svæðið allt með öðrum hætti, til hagsbóta fyrir samfélagið í heild.
Heimild: Mbl.is