Home Fréttir Í fréttum Iðnaðarmenn vilja 100 þúsund króna hækkun lágmarkslauna

Iðnaðarmenn vilja 100 þúsund króna hækkun lágmarkslauna

192
0
Mynd: Anton Brink RÚV

Formaður rafiðnaðarsambandsins, Kristján Þórður Snæbjarnarson, segir að kröfur iðnaðarmanna þurfi ekki að kosta mikið enda vinni margir á markaðslaunum. Hækka verði lágmarkslaunin um hundrað þúsund krónur.

<>

Átjánda þingi sambandsins lauk í gær og fulltrúum þar voru kjaramálin eðlilega ofarlega í huga. Kristján Þórður segir að áherslan sé að hækka lámarkslaunin upp að markaðslaunum sem margir iðnaðarmenn vinna eftir. Krafan er um að hækka lágmarkslaunin úr 280 þúsund krónum í 380 þúsund.

Iðnaðarmannafélögin lýstu þann 6. maí síðastliðinn yfir árangurslausum viðræðum við SA og hafa hafið undirbúning atkvæðagreiðslu um verkfallsheimild. Það eru Rafiðnaðarsamband Íslands, Matvís, Samiðn, Grafía – stéttarfélag í prent- og miðlunargreinum, Félag hársnyrtisveina og  Félag vélstjóra og málmtæknimanna (VM). Kristján segir kröfur þessara félaga fara vel saman.

„Við erum með sameiginlegar kröfur og við viljum taka á dagvinnulaunum iðnaðarmanna í heild sinni. Lágmarkslaun iðnaðarmanna eru nánast þau sömu á milli samninga en við erum með kröfu um að fara með lágmarkslaun iðnaðarmanna upp í 381 þúsund krónur,“ segir hann en bætir við að langstærstur hópur iðnaðarmanna fái greidd hærri laun. „Það er verið að lyfta gólfinu upp að markaðslaunum og það kostar töluvert mikið minna en prósenta segir til um.“

Kristján bendir á að iðnaðarmenn hér á landi hafi ávallt þurft að vinna mjög langan vinnudag til að ná endum saman og núhafa margir þeirra reynslu af störfum í Noregi og samanburðurinn sannfæri menn um að breytingar verði að vera.

„Þar eru menn að horfa til líka þeirrar reynslu sem þeir hafa verið að ná í nágrannalöndum okkar. Þegar okkar félagsmenn eru að fara til Noregs til starfa þá fá menn þar töluvert betri kjör fyrir dagvinnuna,“ segir hann.

Heimild: Vísir.is