„Við vorum að slíta fimmtugasta aðalfundi okkar og á allan þennan tíma höfum við haft löggildingu sem starfsstétt innan mannvirkjageirans,“ segir Brynjar Einarsson, sem var endurkjörinn formaður félagsins í gærkvöldi. „Nú er það ítrekað að koma upp að ríkið eða sveitarfélögin eru að auglýsa eftir störfum eða þátttöku í atvinnulífinu í formi hönnunar eða slíkt þar sem fólk er ítrekað að hundsa byggingafræðinga í þeim lýsingum.“
Fundargestir aðalfundarins í gær voru undrandi á þessum vinnubrögðum opinberra stofnana en félagið hefur eytt töluverðu púðri og fjármagni til að standa vörð um þennan rétt sinn. Brynjar segir það óþolandi að þetta þurfi ítrekað að koma upp.
Hann segir að þrátt fyrir að starfsgreinar á borð við arkitekta, tæknifræðinga, verkfræðinga og byggingafræðinga hafi sínar sérstöður hafi þau lögvarða stöðu til að sinna mannvirkjagerð og hið opinbera þurfi að virða lögin í því samhengi.
„Þegar ríki og sveitafélög eru bundin af lögum þurfa þau að fylgja þeim lögum,“ segir Brynjar. „Þau eiga ekki að auglýsa eftir geðþótta. Lögin kveða skýrt á um þetta.“
Heimild: Visir.is